Grein bæjarstjóra í Bæjarblaðinu Jökli 31. maí sl. í tilefni af lokun útibús Landsbankans í Grundarfirði:

Stefnu Landsbankans er að finna í einkunnarorðunum „hlustum, lærum og þjónum“. Landsbankinn segist vera þjónustufyrirtæki með það meginmarkmið að þjóna viðskiptavinum. Gamla slagorðið „banki allra landsmanna“ finnst reyndar ekki lengur í stefnu hans. Það eru orð að sönnu.

 

Landsbankinn á sér langa og farsæla sögu í Grundarfirði allt frá því Samvinnubankinn opnaði útibú 1964 sem síðar varð útibú Landsbankans við sameiningu bankanna. Eftir 48 ára sögu ákveða yfirmenn bankans fyrirvaralaust að nú sé nóg komið, gróðinn er ekki nógu mikill og kostnaðarhlutfallið óhagstætt. Þetta eru þekktar forsendur sem okkur landsbyggðarfólki eru boðnar.

Helstu rök sem okkur hefur verið boðið upp á er að nú eigi að efla útibúin á landsbyggðinni, t.d. í greiðslumati einstaklinga, sem áður þurftu að bíða í 2-3 vikur eftir því að starfsmaður í Reykjavík sinnti því. Nú mun það taka 10-15 mínútur að sögn. Þetta er stórkostleg framför og vandséð að þessu hefði verið náð nema með lokun útibúsins.

Í stefnu bankans segir að hann ætli sér að skipta um hugarfar. Ákvörðunin um lokun útibúsins í Grundarfirði ber vott um hugarfar bankans gagnvart viðskiptavinum sínum á landsbyggðinni. Samfélagsleg ábyrgð í verki.

Landsbankinn er ríkisbanki og hann starfar í umboði eigenda sinna. Þrátt fyrir fögur fyrirheit eru það stofnanir og fyrirtæki ríkisins sem ganga fram fyrir skjöldu í skerðingu á þjónustu við landsbyggðina.

Stór hluti af störfum sveitarstjórnarfólks fer í varnarbaráttu við ríkið, hvort sem það er vegna löggæslu, heilbrigðismála, fræðslumála eða nú ríkisbanka sem þykist hafa markað sér stefnu um samfélagslega ábyrgð.

Lokun Landsbankans í Grundarfirði mun ekki skipta sköpum fyrir samfélagið en þetta er enn ein árásin á grunnþjónustu þess.

Björn Steinar Pálmason

bæjarstjóri