Í dag, 7. mars, verður skrifað undir samstarfssamning sem leggur drög að stofnun svæðisgarðs á Snæfellsnesi. Svæðisgarðurinn verður eign allra Snæfellinga, en þeir aðilar sem hafa tekið að sér að leiða verkefnið og undirbúning eru sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi; Snæfellsbær, Stykkishólmsbær, Grundarfjarðarbær, Eyja- og Miklaholtshreppur og Helgafellssveit, og félög sem eru samnefnarar í atvinnulífi á svæðinu; Ferðamálasamtök Snæfellsness, Snæfell - félag smábátaeigenda á Snæfellsnesi, Búnaðarfélag Staðarsveitar, Búnaðarfélag Eyja- og Miklaholtshrepps og Búnaðarfélag Eyrarsveitar, ásamt SDS, Starfsmannafélagi Dala- og Snæfellsnessýslu. Áhugasamir aðilar um velferð Snæfellsness eru velkomnir í hópinn.

Hvað er svæðisgarður?
Svæðisgarður er samstarfsvettvangur þar sem byggt er á sérstöðu svæðis og hún nýtt á markvissan hátt til verðmætasköpunar. Svæðisgarður verður einungis til fyrir samstillt átak heimamanna og starf hans er á forsendum þeirra, með hagsmuni íbúa í nútíð og framtíð að leiðarljósi. Markmiðið er að íbúarnir greini og þekki betur þau tækifæri sem felast í nærtækum gæðum svæðisins og stilli saman strengi um nýtingu þeirra. Þá verður einnig auðveldara að miðla tækifærunum til íbúa, viðskiptavina og gesta.

Frumkvæði á Snæfellsnesi
Snæfellingar ríða á vaðið með stofnun fyrsta svæðisgarðsins á Íslandi. Svæðisgarðar (á ensku regional parks) eru hins vegar þekktir víða í Evrópu sem mikilvæg stoð í atvinnu­uppbyggingu þar sem sérstaða og landkostir svæða hafa verið nýttir á markvissan hátt til að auka verðmætasköpun og fjölbreytni í atvinnulífi og til að styrkja byggð. Aðferðin byggir á hugmyndum um byggðaþróun og styrkingu “innan frá”, að frumkvæði heimamanna.
Á svæði sem býr yfir einstökum landkostum og aðdráttarafli, líkt og Snæfellsnesið, getur svæðisgarður verið hreyfiafl fyrir þá sem vilja nýta sér gæði svæðisins og sérstöðu til uppbyggingar og aukinna verðmæta.

Verkefnið nú
Uppbygging samstarfs og innviða svæðisgarðs er langtímaverkefni. Unnið verður markvisst að tilgreindum áföngum á þeirri vegferð næstu tvö árin og um þá áfanga er samið núna. Nýtt verður reynsla erlendis frá þar sem hvað best hefur tekist til við uppbyggingu svæðisgarða.
Í þeirri vinnu sem nú fer af stað verður samfélagið virkjað til að greina sérstöðu svæðisins og þau tækifæri sem felast í nærtækum gæðum Snæfellsnessins til sjávar og sveita, í því skyni að styrkja stoðir undir fjölbreyttari atvinnusköpun og efla samfélagið. Litið verður til tækifæra sem tengjast hvers konar matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu, vöruhönnun og listsköpun, rannsóknum og fræðslu. Þessum upplýsingum verður síðan komið á framfæri á markvissan og aðgengilegan hátt. Leitað verður samstarfs við fjölmarga aðila, stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök og lögð er áhersla á að nýta reynslu og upplýsingar um svæðið, sem fyrir liggur á mörgum, mismunandi sviðum.

Starfandi er stýrihópur skipaður fulltrúum þeirra aðila sem að verkefninu standa og er Gyða Steinsdóttir bæjarstjóri í Stykkishólmi formaður hans.
Verkefnisstjórn er í höndum Bjargar Ágústsdóttur hjá ráðgjafarfyrirtækinu Alta, Grundarfirði.

Nánari upplýsingar má finna á vefnum http://svaedisgardur.alta.is/ og á heimasíðu Grundarfjarðarbæjar.