Á dögunum voru hér staddir nemendur frá alþjóðlegu umhverfisstofnuninni við Lundarháskóla í Svíþjóð, ásamt kennara.  Hópurinn var mjög alþjóðlegur, frá Ástralíu, Georgíu, Ghana og Kólumbíu, auk sænsks kennara.  Létu þau vel af dvöl sinni í Grundarfirði, en verkefni þeirra snerist um að meta stöðu og mögulegar lausnir varðandi umhverfismál helstu sjávarútvegsfyrirtækja í bæjarfélaginu.  Sérstök áhersla var lögð á frárennslismál og meðhöndlun lífræns úrgangs. Unnið hefur verið að verkefninu síðan í mars og var dvölin í Grundarfirði lokaáfangi verkefnisins.

 

Nemendur og forsvarsmenn Grundarfjarðarbæjar og

fyrirtækjanna í verkefninu.

 

Meðal niðurstaðna verkefnisins var að æskilegast væri að aðskilja fráveitu fiskvinnslu frá fráveitukerfi sveitarfélagsins, til að draga úr umfangi skólphreinsistöðvar. Fyrirtæki þurfi að draga úr magni lífræns efnis og vatns sem berst í fráveitu. Magn skólps frá fiskvinnslu í Grundarfirði er gróflega áætlað a.m.k. fjórfalt magn almenns húsaskólps og í því er lífrænt efni sem hugsanlega væri hægt að nýta. Meðal annars var í verkefninu fjallað um möguleika á nýtingu lífræns efnis til framleiðslu ýmissa aukaafurða, svo sem dýrafóðurs. Einnig var mælt með að skoða nánar möguleikann á nýtingu lífræns úrgangs með jarðgerð eða gerjun þar sem hægt er að nýta metangas.

 

Eitt af því sem hafa þarf í huga varðandi meðhöndlun lífræns úrgangs, m.a. frá fiskvinnslu er að nýtingarleiðum fyrir lífrænt efni frá fiskvinnslu hefur fjölgað mjög á síðustu árum og búast má við frekari framþróun á því sviði í nánustu framtíð. Taka þarf tillit til þess til að forðast fjárfestingar í lausnum sem hugsanlega er síðan ekki grundvöllur fyrir til langs tíma.

 

 

Samstarf mikilvægt

Þau fyrirtæki sem aðild áttu að verkefninu eru Djúpiklettur ehf., Fisk - Seafood hf., Guðmundur Runólfsson hf., Soffanías Cecilsson hf. og Sægarpur ehf., auk Grundarfjarðarhafnar og Grundarfjarðarbæjar. Ráðgjafarfyrirtækið Alta tók þátt í mótun verkefnisins ásamt alþjóðlegu umhverfisstofnuninni við Lundarháskóla og átti að því frumkvæði. SSV þróun og ráðgjöf lagði einnig til aðstoð starfsmanns við verkefnið. Verkefnið var styrkt af umhverfisráðuneytinu.

 

Að sögn Stefán Freys Einarssonar, ráðgjafa hjá Alta er æskilegt að skoða sérstaklega hvort og hvernig hægt sé að beita fyrirbyggjandi aðgerðum í matvælaiðnaði, til að draga úr umfangi sameiginlegrar skólphreinsunar og þar með kostnaði sveitarfélaga við að uppfylla opinberar kröfur. Að hans mati er mikilvægt að samstarf sé milli sveitarfélaga og iðnaðar við mótun lausna í fráveitumálum, til að tryggja sátt og hámarks hagkvæmni og væri ánægjulegt hversu vel samstarfið hafi gengið í þessu verkefni. Sveitarfélög á Snæfellsnesi eiga nú þegar samstarf á sviði sjálfbærrar ferðaþjónustu undir formerkjum Green Globe og gæti falist aukin hagkvæmni í því að skoða sameiginlega lausnir varðandi fráveitu og meðhöndlun lífræns úrgangs á Snæfellsnesi.