- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Föstudaginn 16. maí sl. skrifuðu Grundarfjarðarbær og Fóðurblandan ehf. undir samstarfssamning um tilraunir með fræblöndur í Grundarfirði.
Samningurinn gerir ráð fyrir samstarfi til sex ára eða út árið 2030. Samningurinn tengist ICEWATER-verkefninu sem Grundarfjarðarbær tekur þátt í og byggir á Vatnaáætlun Evrópusambandsins, sem gildir á Íslandi. Verkefni Grundarfjarðarbæjar felst í blágrænum ofanvatnslausnum í þéttbýli Grundarfjarðar og fékk bærinn styrk upp á 2,3 milljónir Evra (um 335 millj. ísl. kr.) frá Evrópusambandinu til framkvæmda og rannsókna. Fóðurblandan mun útvega Grundarfjarðarbæ fræblöndur sem henta sérstaklega fyrir þetta verkefni.
Megintilgangurinn með samstarfssamningnum er að auka þekkingu á því hvaða fræblöndur henta best fyrir okkar aðstæður, en markmiðið er að bæta jarðveg, auka líffræðilegan fjölbreytileika, styðja við sjálfbæra sáningarreiti, minnka almennan grasslátt, fegra umhverfið og í leiðinni að fræða íbúa og gesti um tilraun og árangur. Prófaðar verða mismunandi sáningarblöndur í jarðveg á fjölbreyttum svæðum í Grundarfirði og kannað hversu vel þær henti m.v. veðurfar og aðrar aðstæður, þar sem nóg er af vatni, vindi og salti.
Grundarfjarðarbær mun útvega svæði sem eru hentug til tilrauna og prófunar fyrir fræblöndur. Bærinn mun sjá um sáningu fræja og vöktun á svæðunum, þ.e. fylgjast með því hvernig sprettan verður og hvernig fræið hentar svæðinu. Fimm svæði hafa verið valin fyrir tilraunir í sumar 2025 og er reiknað með að ný svæði bætist við á hverju ári. Sett verða upp skilti við hvert svæði til að fræða íbúa og aðra um tilraunirnar og tilgang þeirra.
Árið 2025 hafa eftirtalin svæði verið valin:
Tilraunareitur í Hrannarstíg þar sem búið er að setja upp þrengingu í götu sem á að innihalda blágrænt regnbeð (sjá ljósgrænan reit á miðri mynd). Hér er kjörið svæði til þess að prófa lágar tegundir með grunnu undirlagi. Tegundir verða að þola mikinn þurrk, mikið vatn, mikinn snjó og mengun frá umferð, m.a. salt.
Fyrir tilraunir á fyrsta ári verða notaðar sáningarblöndur sem innihalda gras, blóm (bæði lágvaxin og hávaxin) og smára. Markmiðið er að prófa fjölbreytni og áhrif blandanna í mismunandi aðstæðum og leggja grunn að sjálfbærari og litríkari gróðri sem gæti prýtt bæinn okkar til framtíðar.
Í tilkynningu frá Fóðurblöndunni segir:
Það er mikilvægt fyrir Fóðurblönduna að taka virkan þátt í þessu spennandi verkefni sem Grundarfjarðarbær vinnur nú að. Þar er áhersla lögð á fræ og að þróa náttúrulegar lausnir, sem hentað geta fyrir sveitarfélög í uppgræðslu útisvæða. Með slíku framlagi og þróun vistvænna lausna er sýnt í verki hvernig landbúnaðurinn getur verið hluti af grænni framtíð. Samstarf sem þetta er ekki einungis til marks um samfélagslega ábyrgð, heldur endurspeglar það einnig vilja Fóðurblöndunnar til að þróa sjálfbærar lausnir sem geta nýst landbúnaði og samfélaginu í heild. Með því að prófa mismunandi blöndur svo sem gras, blóm og smára á opinberum svæðum skapast dýrmæt þekking á því hvernig nýta megi aðferðirnar til að auka líffræðilegan fjölbreytileika, bæta jarðveg og gera útivistarsvæði bæði falleg og vistvæn. Þetta samstarf opnar einnig fyrir ný tækifæri til þróunar á vörum og þjónustu.
Hjá Grundarfjarðarbæ erum við mjög spennt að fá Fóðurblönduna til samstarfs, enda mikil þekking þar innanborðs.
Sagt verður nánar frá sáningu og framvindu verkefnisins, bæði hér á vef bæjarins og víðar.