Mynd: Ólafur Ólafsson
Mynd: Ólafur Ólafsson

Á þjóðhátíðardaginn, 17. júní 2023, var tekin í notkun glæsileg saunatunna við sundlaug Grundarfjarðar.   

Saunan er frábær viðbót fyrir sundlaugargesti, en gufuböð eiga að vera mjög heilsusamleg. Gufuböð eru sögð auka virkni ónæmiskerfisins, styrkja hjarta- og æðakerfið, minnka verki, bæta útlit húðar og fleira. Einnig eiga gufuböð að hjálpa til við að losa eiturefni úr líkamanum og meðal annars vegna þess hafa slökkviliðsmenn haft mikinn áhuga á að eiga aðgang að saunu, ef þeir lenda í reykköfun við störf sín. 

Saunatunnan var að hluta til fjármögnuð með peningagjöf frá Lionsklúbbi Grundarfjarðar, eftir söfnun á Kúttmagakvöldi í byrjun mars sl. Inní þá söfnun komu m.a. framlög frá Starfsmannafélagi Slökkviliðsins og Lionsklúbbi Kópavogs. Markmið Lionsklúbba er að styðja og styrkja nærumhverfi sitt og var vilji Lionsfélaganna hér að styðja við heilsueflingu slökkviliðsmanna, íbúa og gesta. 

Raflagnavinna í tengslum við nýju saunatunnuna var nokkuð umfangsmikil, en um hana sáu þeir Ágúst Jónsson og Sigurður Þorkelsson, Rafgrund og gáfu þeir vinnuframlag sitt til verksins.  

Öllum framangreindum er þakkað innilega fyrir sín framlög.  

Nú er unnið að því að setja upp nýja myndavél vegna eftirlits í tengslum við nýju saunatunnuna og útisturta er síðan væntanleg fljótlega. Grundarfjarðarbær hefur einnig fjárfest í nýju „köldu kari“ í stíl við saunatunnuna og verður hún sett upp í sumar.

 Íbúar og gestir eru hvattir til að drífa sig í sund og prófa nýju saununa – og jafnframt að kynna sér öryggisreglur um gufuböð.