Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur framlengt sérstaka frístundastyrki fyrir börn sem búa á tekjulægri heimilum þar sem markmiðið er að jafna tækifæri þeirra til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og verður nú hægt að sækja um styrki út árið 2021. Þá hefur félagsmálaráðuneytið einnig gengið frá samningi við Abler um að hægt verði að sækja um styrkina með sambærilegum hætti og hefðbundinn frístundastyrk sem sveitarfélögin veita, eða við skráningu barns í íþrótt eða tómstund gegnum rafrænt skráningarkerfi Sportabler. Prófanir á virkni Sportabler eru í gangi og stefnt er á að opna fyrir umsóknir í byrjun næstu viku.

Sportabler fer með mikinn meirihluta skráninga í tómstundir og er langyfirgripsmesta forritið þar sem hægt er að skrá tómstundir barna. Markmiðið með samningnum er að ná sem allra víðast og einfalda lífið fyrir sem flesta.

Hægt er að sækja sérstakan frístundastyrk fyrir börn sem fædd eru á árunum 2006-2015 og búa á heimili þar sem heildartekjur heimilisins voru að meðaltali lægri en 787.200 kr. á mánuði á tímabilinu mars – júní 2021. Styrkurinn er 25.000 kr. á hvert barn til áramóta og rúmlega 13.000 börn eiga rétt á styrknum. Stefnt er á að veita sams konar styrk eftir áramót.

 

Ungmennafélag Grundarfjarðar notast við Sportabler og það ætti að vera hægt að sækja um þar þegar verður opnað fyrir umsóknir.

 

Sjá meira á vef Stjórnarráðsins