Grundfirðingurinn Rúnar Geirmundsson gerði sér lítið fyrir og setti sex Íslandsmet á móti Kraftlyftingasambandsins RAW um síðustu helgi. Ekki lét kappinn þar staðar numið  heldur jafnaði heimsmet í réttstöðulyftu og sló heimsmet í hnébeygju. 

Heimsmetin fást ekki skráð þar sem mótið var ekki alþjóðlegt en Rúnar kippir sér lítið upp við það: „Það truflar mig svo sem ekki mikið þar sem að ég veit þetta sjálfur“. Annars er þessi stórkostlegi árangur aðeins nýtt skref á frábærum ferli Rúnars. Hann hefur orðið Íslandsmeistari tólf sinnum og Evrópumeistari einu sinni. Fram að þessu hefur Rúnar verið að keppa í -67,5 kg flokki en nú hefur hann tekið ákvörðun um að fara í -75 kg flokkinn. Því verða þrotlausar æfingar í sumar en takmarkið er að vera klár í slaginn í nóvember. Þá keppa Rúnar og Heiðar Geirmundsson bróðir hans á heimsmeistaramóti í kraftlyftingum sem haldið er í Flórída. Heiðar er einnig margverðlaunaður afreksmaður í kraftlyftingum.

 

Við óskum Rúnari innilega til hamingju með glæsilegan árangur og hlökkum til að fylgjast með þeim bræðrum í Flórída.