Skipið Albatros heimsótti Grundarfjörð þann 12. september. Veður þennan dag var óvenju slæmt en gestirnir létu það ekki á sig fá og töluverður fjöldi fór í rútuferðir og aðrir skoðuðu bæinn.

Þá var gripið til þeirrar nýbreytni að móttökuhópur hafnarinnar fór um borð í skipið og hélt sýningu sína þar í stað hinnar hefðbundnu staðsetningar í Sögumiðstöðinni. Sýningin vakti að venju mikla lukku.

Í sumar komu 13 skip til Grundarfjarðar og voru þau af ýmsum stærðum. Minnsta skipið var Prince Albert (6.000 tonn) og það stærsta Ocean Princess (30.000 tonn). Það var þó síðasta skip sumarsins, Albatross, sem bar flesta farþega, en þeir voru 824. Ef litið er til heildarfjölda yfir sumarið komu með þessum 13 skipum alls 5088 farþegar og 2692 áhafnarmeðlimir.

Grundfirðingar hafa tekið vel á móti þessum gestum og hafa þessar skipakomur leyst úr læðingi margar skemmtilegar hugmyndir heimamanna og þá sérstaklega í tengslum við ferðaþjónustu.

Stór þáttur í vinsældum Grundarfjarðar sem áfangastaðar fyrir skemmtiferðaskip er móttökuhópur Grundarfjarðarhafnar. Hópurinn samanstendur af hæfileikaríkum unglingum sem skemmta gestunum með söng, leikjum og dansi. Einnig hafa endurbætur á móttökusvæði hafnarinnar gert Grundarfjörð aðgengilegri fyrir þau skip sem eru of stór til að leggjast að bryggju.

Nú þegar hafa 13 skip boðað komu sína næsta sumar og þar af eru tvö sem verða í sinni fyrstu heimsókn.