Eftirfarandi frétt birtist á www.mbl.is í dag 24. júní:

SIGLINGAR franskra sjómanna á Íslandsmið forðum verða ofarlega í huga manna í hafnarbænum Paimpol á Bretaníuskaga í dag, en þá hefst þar siglingakeppni sem skírskotar til fiskveiða á frönskum gólettum við Ísland á 18., 19. og framan af 20. öld. Nítján skútur leggja þá upp í keppnina Skippers d'Islande. Tómas Ingi Olrich sendiherra í París ræsir skúturnar af stað. Tvær aldnar gólettur, sömu gerðar og skútur sem sigldu til Íslandsveiða frá Paimpol, verða í höfninni við upphaf keppninnar, en þær notar franski flotinn sem skólaskip.

Í fyrstu lotu verður siglt frá Paimpol til Reykjavíkur og er skútunum ætlað að vera komnar þangað 4. júlí. Frá Reykjavík verður siglt til Grundarfjarðar 8. og 9. júlí en þar voru miðstöðvar útgerðarmanna frá Paimpol á Íslandi. Íslenskar skútur taka þátt í þeirri siglingu og verður sérstök keppni milli þeirra og frönsku skútanna á þeirri leið.

 

Frá Grundarfirði verða skúturnar ræstar af stað 12. júlí og sigla þær í einum áfanga til Paimpol í Frakklandi eða um 1.300 sjómílna vegalengd. Eiga þær að vera komnar á leiðarenda 21. júlí. Heildarvegalengd sem lögð verður að baki í keppninni er um 2.600 sjómílur eða rúmlega 4.800 km.

 

Nokkrir skútustjóranna nota keppnina til að öðlast þátttökurétt í mikilli siglingakeppni frá St. Malo til Karíbahafsins í október, eftir Rommleiðinni svonefndu. Meðal keppenda í Skippers d'Island eru nokkrar skútur sem þegar hafa uppfyllt kröfur til þátttöku þar.

 

Konur við stjórn á tveimur af skútunum

Tvær skútanna verða undir stjórn kvenna, þar á meðal skútan Vedettes de Brehat. Henni stjórnar 24 ára frönsk kona að nafni Servane Escoffier frá Saint-Malo. Hún er orðin þekkt meðal kappsiglingamanna sakir þess að hún varð sl. vetur í þriðja sæti í Transat-keppninni frá Le Havre í Frakklandi til Salvador de Brehat, hinnar fornu höfuðborgar Brasilíu. Stysta leið þar á milli er 4.340 sjómílur og lagði hún leiðina að baki við annan mann á röskum 20 sólarhringum.

 

Hún sigldi skútu sem vann þá keppni 2003 og siglinguna eftir Rommleiðinni 2002. Sömu skútu, Vedettes de Brehat, stýrir hún í keppninni milli Frakklands og Íslands í ár og þar ætlar hún að uppfylla skilyrði til þátttöku í keppninni eftir Rommleiðinni í haust.

 

Þá vann Servane Escoffier ekki minna afrek er hún stýrði skútu sinni til sigurs í flokki 40 feta einbytna í hinni sögufrægu Fastnet-siglingakeppni við Bretlandseyjar í fyrrasumar. Meðal annarra keppenda er faðir Servane, Bob, sem er reyndur siglingamaður. Meðal þátttakenda nú eru og skútustjórar og áhafnir sem áður hafa tekið þátt í Skippers d'Islande og einnig væntanlegir keppendur Frakka á ólympíuleikjunum í Peking 2008.

 

Að þessu sinni fer keppni Skippers d'Islande fram þriðja sinni. Um er að ræða einhverja nyrstu úthafskeppni á skútum sem haldin er í heiminum. Fyrst var efnt til kappsiglingarinnar árið 2000 og þótti hún takast vonum framar. Í henni tóku aðeins þátt skútur sem siglt er af áhugamönnum en ekki atvinnumönnum. Keppt var að nýju 2003 og þótti hún takast jafnvel enn betur. Kappsiglingin er á góðri leið með að skapa sér fastan sess.

 

Á að efla vináttuböndin

Markmið aðstandenda í Paimpol með keppninni er að efla frekar vináttubönd við Ísland og minnast Íslandssjómannanna frönsku. Í áratugi sigldu skútur upp að Íslandsströndum frá Paimpol. Úthald skútanna var venjulega hálft ár. Margar þeirra sneru aldrei aftur og þúsundir franskra sjómanna hlutu vota gröf á Íslandsmiðum. Um helmingur þeirra, eða um 2.000 sjómenn, voru frá Paimpol og blóðtaka bæjarins því mikil.

 

Sögu þessara veiða hefur Elín Pálmadóttir blaðamaður gert rækileg skil í bók sinni Fransí Biskví, en sú bók var gefin út endurbætt í franskri þýðingu sl. vetur. Þá er sögu veiðanna einnig haldið vel til haga í Paimpol. Þar bera götur, kapellur og önnur kennileiti nöfn sem minna á Íslandsveiðarnar. Þá voru sjómennirnir frönsku manna á meðal í heimalandi sínu kallaðir "Íslendingarnir frá Paimpol".

 

Þess má geta að Icelandair er meðal helstu styrktaraðila siglingakeppninnar.