Sigurður Heiðar Valgeirsson, nemandi í 9. bekk við Grunnskóla Grundarfjarðar, var meðal verðlaunahafa í netratleik í tengslum við hinn árlega forvarnardag sem forsetaembættið hefur staðið fyrir undanfarin ár. Netratleikurinn var ætlaður ungu fólki sem fætt er á árunum 1999-2002. Sigurði Heiðari er óskað hjartanlega til hamingju með verðlaunin.

Sigurður Heiðar mætti til Bessastaða ásamt fjölskyldu sinni, líkt og aðrir vinningshafar. Að verðlaunaafhendingunni lokinni bauð forsetinn upp á kaffiveitingar og gaf sér tíma til að spjalla við gestina.

 

Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forsetaembættisins í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Deginum er ætlað að koma á framfæri heillaráðum til að draga úr líkum þess að ungmenni verði áfengi og fíkniefnum að bráð.