Fær bílfar í frelsið á Grundarfirði.

Nú hefur fengist grænt ljós frá yfirdýralækni um að sleppa megi erninum Sigurerni sem dvalið hefur í Húsdýragarðinum í Laugardal frá því í lok júní.Niðurstöður sýna sem tekin voru reyndust neikvæð og fær hann því að halda til síns heima í Grundarfirði.  Þar mun Sigurbjörg Sandra Pétursdóttir bjargvættur arnarins sleppa honum og ljúka þar með ævintýrinu sem hófst fyrir 5 mánuðum síðan.  Áætlað er að honum verði sleppt klukkan 13:00 sunnudaginn 26. nóvember.

 

Haförninn kom í garðinn í tengslum við verkefnið “Villt dýr í hremmingum” sem fyrirtækið Fálkinn er bakhjarl að. Hann hafði steypst ofan í lón en náði að koma sér að landi þar sem bjargvætturinn Sigurbjörg handsamaði hann og kom honum með góðri hjálp í hendur sérfræðinga.  Kom þá í ljós að örninn var mikið grútarblautur og einhverra hluta vegna vantaði á hann allar stélfjaðrirnar og hann var því ósjálfbjarga.  Eftir að Þorvaldur Þ. Björnsson á Náttúrufræðistofnun Íslands hafði þvegið fuglinn nokkrum sinnum var hann settur út í stórt fuglabúr þar sem hann hefur dvalið síðustu 5 mánuði.

 

Ekki er vitað hvað varð til þess að hann missti stélfjaðrirnar en í fyrstu var talið að vöxtur þeirra allra myndi taka eitt til tvö ár.  Annað hefur komið á daginn og óhætt þykir að sleppa honum mun fyrr en í fyrstu var talið enda er stélið fullvaxið á aðeins 5 mánuðum.  Eflaust hefur nægt og gott atlæti hjálpað til enda hefur örninn étið vel m.a. hrossakjöt , þorsk og það sem til fellur.

 

Hann hefur verið var um sig og fylgst vel með því sem er að gerast í kringum hann.  Örninn hefur nú náð fullum styrk og er tilbúinn í lífsbaráttuna að nýju.  Sigurörn er 6 ára og hefur því reynslu af því að bjarga sér að vetri til.  

 

Frétt fengin af www.husdyragardur.is.