Mikill umhverfisskaði er í uppsiglingu vegna 25-30 þúsund tonna rotnandi síldar í Kolgrafafirði. Bæjarstjórn Grundarfjarðar hefur þungar áhyggjur af stöðunni og hversu langan tíma það hefur tekið að setja fram aðgerðaráætlun til lausnar.

Bæjarstjórn bókaði á fundi sínum þann 10. janúar:

„Bæjarstjórn Grundarfjarðar lýsir áhyggjum sínum vegna seinagangs á aðgerðum vegna rotnandi síldar í Kolgrafafirði þar sem við blasir alvarlegt umhverfisslys. Bæjarstjórn kallar því eftir viðbragðsáætlun sem fyrst, sem byggð verði á rannsóknum og faglegri þekkingu.

 

Jafnframt vill bæjarstjórn eiga gott samstarf við Hafrannsóknastofnun, Umhverfisstofnun og umhverfisráðuneyti vegna þessa máls og leggur áherslu á virkt upplýsingaflæði. Ábyrgð og kostnaður vegna mögulegrar hreinsunar telur bæjarstjórn útilokað að geti legið hjá landeigendum eða sveitarfélaginu.“