Frá því að um 30 þúsund tonn af síld drapst í Kolgrafafirði í desember hefur verið fylgst náið með málinu af hálfu Grundarfjarðarbæjar. Leitað hefur verið til sérfræðinga Umhverfisstofnunar og Hafrannsóknastofnunarinnar til að fá skýringar á þessum atburði og hvernig bregðast eigi við.

 

Erfitt er að ímynda sér umfang þessa síldardauða en gera má ráð fyrir að þetta séu hið minnsta um 120 milljón fiskar. Það er því fráleitt að bera þetta magn saman við hvalreka eða annan slíkan atburð í náttúrunni eins og Umhverfisstofnun gerði.

Það skiptir ekki máli hvort notuð eru hugtökin bráðamengun, umhverfisslys eða jafnvel náttúruhamfarir, vandinn er hinn sami sem við er að glíma og þetta er ekki einkamál landeigenda eða sveitarfélagsins.

 

Bæjarstjórn hefur komið á framfæri áhyggjum við Umhverfisstofnun og Hafrannsóknastofnunina. Aldrei áður hefur svo mikið magn af fiski drepist inni í firði við Íslandsstrendur svo vitað sé. Áður en hægt er að draga ályktanir eða ákveða viðbrögð er nauðsynlegt að afla upplýsinga og gagna. Starfsmenn Umhverfisstofnunar og Hafrannsóknarstofnunarinnar hafa undanfarna daga og vikur skoðað aðstæður og er nú beðið niðurstöðu úr þeim athugunum.

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun mun stofnunin hafa frumkvæði að því að boða landeigendur, sveitarstjórn og aðra hagsmunaaðila til fundar til að fara yfir stöðuna og ræða næstu skref. Umhverfisráðherra hefur verið boðið á þann fund.

Íbúar eru uggandi um stöðu málsins og mögulegar afleiðingar. Grundarfjarðarbær hefur lagt ríka áherslu á að eiga samstarf við sérfræðinga í hafrannsóknum og umhverfismálum til að leita skýringa og viðbragða við þessu.

Grundarfjarðarbær mun áfram fylgjast grannt með þróun mála og fylgja fast eftir sjálfsögðum kröfum um að viðeigandi stofnanir ríkisins komi að þessu máli.

Umhverfisstofnun var í dag sent meðfylgjandi bréf varðandi síldardauðann í Kolgrafafirði.

Bréf til Umhverfisstofnunar