Undanfarna daga hefur síldveiði glæðst á ný í Grundarfirði.  Veðrið hefur verið hagstætt til veiða og sjórinn lygn.  Flesta daga hafa verið fjögur til fimm síldveiðiskip að veiðum í einu.  Vandasamt er að kasta nótinni inni á firðinum því dýpi er afar misjafnt.  Þetta fengu skipverjar á Berki NK að reyna síðastliðinn föstudag þegar nótin flæktist í skrúfu og skrúfuöxli skipsins.  Það tók kafara 38 klukkustundir að losa nótina.  Börkur fékk svo hluta af stóru kasti hjá Kap VE og sigldi til heimahafnar til löndunar í gærkvöldi.