Í bæjardagbók þann 17. janúar var sagt frá stofnun áhugamannafélagsins Blöðruskalla. Félaginu er ætlað að vinna að undirbúningi sjálfseignarstofnunar sem ætlað er að taki til starfa og fari með forsvar fyrir Eyrbyggju – sögumiðstöð.

Eins og fram kom í bæjardagbókinni var samið um kaup á húsnæði gömlu verslunarinnar Grundar undir starfsemi sögumiðstöðvar, en sögumiðstöð er fyrri áfangi í áætlun um að setja á stofn Eyrbyggju – sögumiðstöð og sögugarð skv. viðskiptaáætlun sem unnin var fyrir Grundarfjarðarbæ. Í síðari áfanga er gert ráð fyrir að gera skil merkri sögu Grundarfjarðar­kaupstaðar á Grundarkampi. En sá áfangi bíður betri tíma.

Nú er unnið að undirbúningi að stofnun sérstakrar sjálfseignarstofnunar um rekstur og starfsemi sögumiðstöðvar. Til skýringar á hugtakinu sjálfseignarstofnun má kannski helst benda á að Dvalarheimilið Fellaskjól er sjálfseignarstofnun og í upphafi stóðu fjölmargir aðilar að stofnuninni.

Ingi Hans Jónssonhefur tekið að sér að kynna þetta verkefni og vinna undirbúningsvinnu. Ætlunin er að stofnfundur sjálfseignarstofnunar verði fyrir páska (fyrri hluta aprílmánaðar). Næg verkefni bíða svo stjórnar þeirrar stofnunar. Taka þarf ákvarðanir um hvert eigi að stefna í starfsemi og rekstri sögumiðstöðvar. Í fyrrnefndri viðskiptaáætlun er að finna meginlínur og margar hugmyndir sem vinna þarf betur úr og taka ákvarðanir um.

Á næstunni verður kynnt fyrir íbúum meginhugmyndin um stofnun sögumiðstöðvar og hvað í slíkri starfsemi getur falist. Það er ljóst að fjölmörg tækifæri eru handan við hornið í menningartengdri starfsemi og afþreyingu. Meira um það síðar. Leitað verður til fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga um að vera þátttakendur í þessu verkefni sem hefur mikla þýðingu fyrir samfélagið okkar í heild.

Styrkveitingar til verkefnisins

Eins og fram hefur komið í bæjardagbók (23. október 2002) fékk Grundarfjarðarbær 100.000 kr. styrk frá Styrktarsjóði Sparisjóðs Eyrarsveitar á síðasta ári vegna,,fyrirhugaðrar sögumiðstöðvar í Grundarfirði” og var sjóðurinn með því fyrsti styrktaraðili þessa verkefnis. Einnig fékkst 100.000 kr. styrkur frá Styrktarsjóði Brunabótafélags Íslands vegna verkefnisins ,,Grundarfjarðarkaupstaður hinn forni”.  

Sótt var um framlög úr ríkissjóði með beiðni til fjárlaganefndar Alþingis í september 2002, en ekki fékkst jákvætt svar við því erindi.

Í janúarmánuði sl. var svo sótt um styrki til samtals sjö aðila, þ. á m. til Byggðastofnunar, Þjóðhátíðarsjóðs og Fornleifasjóðs.

Þær ánægjulegu fréttir bárust fyrir nokkrum dögum að sögumiðstöðin hefur fengið 2 millj. kr. styrk frá samgönguráðuneyti skv. umsókn þar um.

Í gær var svo úthlutað styrkjum úr Menningarborgarsjóði og fékk Grundarfjarðarbær 400.000 kr. styrk vegna sýningarhalds í Eyrbyggju – sögumiðstöð í Grundarfirði.

Til að sjá nánar um úthlutun Menningarborgarsjóðs, smellið hér.

Sannarlega góð byrjun og vonandi að viti á gott fyrir starfsemina.