Fimmtudaginn 19. júní blásum við til hátíðarstemmningar í Grundarfirði. Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins ,,Funchal” kemur að bryggju kl. 8.00, nær allir gestirnir eru franskir. Alls hafa sjö skemmtiferðaskip boðað komu sína í sumar og sérstakt átak var sett af stað í vetur til að fjölga komum þeirra á næstu árum.

 

Af hálfu Grundarfjarðarhafnar og fjölmargra annarra aðila er búið að leggja mikla undirbúningsvinnu í að taka vel á móti því fólki sem þarna er innanborðs. Það er ósk okkar að bæjarbúar leggi okkur lið við að hafa hér lifandi og skemmtilegt mannlíf og að við sýnum okkar bestu hliðar þennan dag.

Ferðafólk sem hingað kemur hefur haft á orði þegar spurt er hvað sé sérstakt við að koma til Grundarfjarðar, að hér sé upp til hópa glaðlegt fólk og bærinn sé einstaklega fallegur. Þessa ímynd bæjarins er vert að halda í. Það er m.a. hægt að gera með því að vera á röltinu um bæinn, heilsa gangandi fólki, sama hver það er, BROSA allan hringinn og vera vel sýnileg. Þetta gerum við reyndar alla daga ársins hér í Grundarfirði en gaman væri ef við vönduðum okkur sérstaklega þessa daga sem skipin eru hér við höfn.

Meðal þess sem gert verður þennan dag er:

Upplýsinga- og handverksbásar niður við bryggju

Leikskólabörn syngja, tónlistaratriði, o.m.fl. á bryggjunni um morguninn

Fólk í íslenska búningnum

Fótboltaleikur kl. 15.30; Áhöfn skips - grundfirsk ungmenni

Tónlist í Kirkjunni kl 18.00

Lengri opnunartími verslana

Allra handa sýningar á nokkrum stöðum í bænum

Hestar til sýnis o.fl. o.fl.

 

Við brottför skipsins kl. 19.45 munum við svo hafa sérstakt leyni-tónlistaratriði nokkurra aðila sem ekki hafa komið fram opinberlega í Grundarfirði um langa hríð

 

Grundfirðingar, öllum er velkomið að rölta niður á bryggju og taka þátt í stemmningunni, handverks- og listafólki munum við útvega aðstöðu (hafa má samband við Hrafnhildi Jónu í síma 690-1707, Shelagh í síma 696-3041 og Johönnu í síma 691-1769.) Gaman væri að sjá sem flesta í íslenskum hátíðarbúningi þennan dag. Tökum höndum saman og verum glöð og kát þennan dag, sem og aðra daga.