Þann 4. október sl. komu þrír Frakkar í heimsókn til Grundarfjarðar. Þau eru skipuleggjendur siglingakeppninnar Skippers D’Islande sem farin verður í júní-júlí á næsta ári. Heimsókn Frakkanna var liður í undirbúningi keppninnar og voru skoðaðar aðstæður í Grundarfjarðarhöfn og -bæ.

Siglingakeppnin hefst í Primpol í Frakklandi, vinabæ Grundarfjarðar, þann 24. júní nk. Siglt verður um 1.210 mílna leið til Reykjavíkur og þaðan haldið til Grundarfjarðar.

 Leggurinn Reykjavík-Grundarfjörður er hugsaður sem sérstök keppni, meiri skemmtisigling, og er þess vænst að íslenskar skútur muni taka þátt á þeirri leið. Þegar hafa 10 skútur verið skráðar til leiks en vonast er til að allt að 20 skútur muni taka þátt. Stoppað verður í Grundarfirði í þrjá sólahringa en keppnin verður ræst héðan 12. júlí beint til Frakklands.

Undirbúningur hefur verið mikill um nokkurt skeið og gengur að sögn Frakkanna vel. Þetta verður í þriðja sinn sem slík keppni er haldin, þó þetta sé í fyrsta sinn sem Grundarfjörður er áfangastaður í keppninni.

Keppnin er haldin til að minnast tengsla Frakka og Íslendinga, Íslandsveiða og –veru Frakka hér við strendur fyrr á öldum. Skippers d´Islande-keppnin er með nýja og glæsilega vefsíðu, bæði á frönsku og ensku, sem lesendur eru hvattir til að kíkja á.

Í tengslum við keppnina munu á annaðhundrað Frakkar dvelja í Grundarfirði þessa daga í júlí 2006.