Eins og fram hefur komið er um þessar mundir unnið að umfangsmiklum skipulagsverkefnum. Skipulagshópur á vegum bæjarins hefur unnið að endurskoðun á hluta þéttbýlisins, en það eru Zeppelin arkitektar, Orri Árnason og félagar, sem eru hönnuðir þess. Þar er um að ræða hönnun á nýju íbúðahverfi vestan Hjaltalínsholts, endurskoðun á skipulagi miðbæjar, íþróttasvæði m.t.t. nýrra mannvirkja og Grafarland - framtíðarskipulag, auk tenginga á milli svæða.

Frumdrög hugmynda að skipulagi Grafarlands og tengingar út frá því.
 

Hugmyndir Orra og félaga eru komnar fram að öllum þeim svæðum sem huga átti að, en hinsvegar eru tillögurnar ekki fullmótaðar. Þannig verða þær þó lagðar fram á opnum kynningarfundi sem stefnt er að því að halda þann 15. mars n.k.

Hugmynd Zeppelin að nýrri íbúðargötu ofan Ölkelduvegar, í nálægð við skóla- og íþróttasvæði.

Aðalskipulag dreifbýlis er einnig um það bil að fara í lokakynningu meðal íbúa, en það er Teiknistofan Eik (Erla Bryndís Kristjánsdóttir landsl.arkitekt) sem hefur unnið það fyrir Grundarfjarðarbæ.

 

Fleiri myndir af skipulagshugmyndum verða settar á bæjarvefinn á næstunni, en Orri og félagar í Zeppelin vinna nú að frágangi þeirra.

 

Tekið skal fram að hugmyndirnar geta átt eftir að breytast.