Svæðisskipulag Snæfellsness„Andi Snæfellsness - auðlind til sóknar” fékk, þann 26. nóvember, Skipulagsverðlaunin 2014. Það var stoltur og glaður hópur frá Snæfellsnesi sem kom saman í Ráðhúsi Reykjavíkur, til að taka við þessari viðurkenningu ásamt ráðgjafarfyrirtækinu Alta, sem veitti faglega ráðgjöf við skipulagsgerðina.

 

Verðlaunin eru veitt á tveggja ára fresti og í ár var dómnefnd skipuð af Skipulagsfræðingafélagi Íslands, Arkitektafélagi Íslands, Tæknifræðingafélagi Íslands, Verkfræðingafélagi Íslands, Félagi íslenskra landslagsarkitekta, Ferðamálastofu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

 

Í ár var sérstök áhersla á skipulagsgerð í tengslum við ferðaþjónustu og samþættingu hennar við það byggða umhverfi og náttúru sem fyrir er. Einkum var skoðað hvernig faglega unnið skipulag gæti styrkt staðaranda og samfélög, til hagsbóta fyrir íbúa, ferðamenn og umhverfið.

Í umsögn dómnefndar segir m.a.:

“Að mati dómnefndar er svæðisskipulagið afar vel unnið, mun nýtast vel til aðalskipulagsgerðar fyrir

sveitarfélögin á svæðinu og er góð fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög. Vel er staðið að greiningum á

svæðinu sem og aðgerðaráætlun til framtíðar. [...] Skipulagsverkefnið felur jafnframt í sér nýbreytni við skipulagsgerð hvað varðar samvinnu sveitarfélaga á svæðisvísu við fulltrúa úr atvinnulífinu og íbúa, en þessir aðilar unnu sem einn hópur að svæðisskipulaginu. Ennfremur er svæðisskipulagsgerðin hluti af undirbúningi og þróun Svæðisgarðsins Snæfellsness, sem er frumkvöðlastarf á Íslandi hvað varðar samvinnu um atvinnu- og byggðaþróun á svæðisvísu.”

Hér má lesa umsögn dómnefndar í heild sinni.

 

Í svæðisskipulaginu er leitað leiða til að styrkja ímynd Snæfellsness og auka fjölbreytni í atvinnulífi og mannlífi. Þar er m.a. sett fram stefna um snæfellskt ferðalag. Skilgreind eru fjölmörg markmið og leiðir að þeim sem ætlað er að stuðla að því að ferðalangar á Snæfellsnesi finni fyrir sterkum anda svæðisins, njóti góðrar þjónustu, spennandi upplifunar og áhugaverðrar afþreyingar á fjölbreyttum ferðaleiðum og áfangastöðum sem dreifast um allt Snæfellsnes. Mikilvægur þáttur hér er einnig þróun matvæla í heimbyggð í samstarfi við bændur og aðila í sjávarútvegi, sem er ætlað að efla matarmenningu og framboð staðbundinna matvæla.

 

Formlegir þátttakendur í þessari vinnu hafa verið sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi; Eyja- og Miklaholtshreppur, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær, auk samstarfsaðila sem eru: Ferðamálasamtök Snæfellsness, Snæfell - félag smábátaeigenda á Snæfellsnesi, Búnaðarfélög Eyrarsveitar, Staðarsveitar og Eyja- og Miklaholtshrepps og Starfsmannafélag Dala- og Snæfellsnessýslu, með aðstoð ráðgjafarfyrirtækisins Alta.

 

Samhliða svæðisskipulagsvinnunni, sem stýrt var af svæðisskipulagsnefnd sveitarfélaganna, hafa Snæfellingar stofnaðSvæðisgarðinn Snæfellsnes. Hann er samstarfsvettvangur sveitarfélaganna, íbúa og atvinnulífs og þar verður unnið að framgangi þeirra verkefna sem sett eru fram í svæðisskipulaginu. Fylgt er fordæmum um svæðisbundið samstarf, sem skilað hefur raunverulegum árangri við uppbyggingarstarf sem þetta, t.d. í Noregi, Sviss, Frakklandi, Bretlandi, Austurríki og Þýskalandi.

Það er von og trú allra sem að þessari vinnu hafa komið að hún muni nýtast sem lyftistöng fyrir atvinnulíf og samfélag á Snæfellsnesi á næstu árum og gera það samkeppnishæfara til framtíðar. Nánari upplýsingar um svæðisskipulagið og Svæðisgarðinn Snæfellsnes eru á www.snaefellsnes.is og www.alta.is