Þann 15. mars sl. var haldinn almennur kynningarfundur um skipulagshugmyndir sem Zeppelin arkitektar hafa unnið með skipulagshópi bæjarins. Fundurinn var gagnlegur og komu margar ábendingar þar fram.

 

Á fundi skipulagshóps þann 21. mars sl. voru þeir aftur mættir Einar Ingimarsson og Orri Árnason arkitektar. Farið var yfir hugmyndir um skipulag hafnarsvæðis og miðbæjar, en hugmyndir sem tengjast hafnarsvæði eru á frumstigi og enn ekki fullmótaðar. Á fund skipulagshóps komu ýmsir fulltrúar hagsmunaaðila, s.s. sjávarútvegsfyrirtækja og annarra sem tengjast höfninni.

 

Einnig kynnti Orri nýja útfærslu á íþrótta- og sundlaugarsvæði, þar sem gert er ráð fyrir íþróttamannvirkjum, þar á meðal sundlaug, sunnan núverandi íþróttahúss. Við staðsetningu sundlaugar er reynt að hafa í huga ýmis atriði, m.a. samnýtingu með öðrum íþróttamannvirkjum og tengingu við skólann, að skjólsælt sé og sólríkt og svo hjálpar til ef útsýni er gott úr heitu pottunum! Í hugmyndum Zeppelin var einnig búið að taka frá svæði fyrir frekari uppbyggingu íþróttavalla eða –svæðis í nágrenni núverandi svæðis, en ábendingar komu fram um þörf fyrir slíkt á kynningarfundinum 15. mars. Tjald- og húsbílasvæði er hugsað nálægt sundlaug og íþróttamannvirkjum.

Zeppelin vinnur nú að þessum tillögum með skipulagshópi. Fundur er fyrirhugaður á næstunni með ,,hagsmunaaðilum í miðbæ” til að kynna hugmyndir um skipulag fyrir miðbæ og fá fram sjónarmið.