Starfsemi Skógræktarfélags Eyrarsveitar hefur verið öflug á liðnum árum. Á árunum 1987-88 var byrjað að planta í svæðið þar sem nú er kominn nokkuð myndarlegur „skógur“ á Fellsásnum, svæði undir Fellunum fyrir ofan Hjaltalínsholt. Plantað hefur verið í svæðið fyrir ofan byggðina undir Fellunum, fyrir neðan vatnstankinn, í Ölkeldudal og nánast allt að spennistöð. Nú nýverið var á vegum bæjarins útbúið aðkomusvæði fyrir Skógræktina frá nýja veginum um Ölkeldudal.

 

Stjórn Skógræktarfélagsins við „skóginn“ á Holtinu.

Á fundi bæjarstjóra með stjórn Skógræktarfélagsins sl. fimmtudagskvöld, 9. júní, var farið yfir þetta svæði og plönturnar skoðaðar og rætt um frágang og frekari uppbyggingu á svæðinu.

 

Ætlunin er að ganga frá aðkomusvæði Skógræktarinnar við Ölkelduveg með „þrifalagi“ á næstunni og mun Skógræktarfélagið síðan gróðursetja í og við svæðið. Rætt var um að setja þar upp aðstöðu til áningar, bekki og borð, og hugsanlega útigrill, þar sem fólk gæti komið og grillað, en á vegum bæjarins er verið að skoða möguleika á því að setja upp útigrill með aðstöðu á 1-2 stöðum innanbæjar í sumar.

Í „skóginum“ á Holtinu hefur Skógræktarfélagið unnið að því að grisja skóginn, leggja þar göngustíga og auðvelda aðkomu að svæðinu. Grundarfjarðarbær mun setja upp bekk við svæðið og ennfremur er ætlunin að endurbæta og fríska upp gönguleiðina að svæðinu frá Holtinu.

Ætlunin er að skoða möguleika á merkingum á svæðinu og aðkomuleiðum að því.

 

Þess má geta að skilaboð íbúaþings Grundfirðinga, sem haldið var í mars sl., voru mjög skýr um að íbúarnir vildu meiri gróður í bæinn, útivistarsvæði og aðstöðu fyrir fjölskyldur til að koma saman og vera saman. Þetta er haft í huga með því að styðja við uppbyggingu og frágang á skógræktarsvæðinu. Á Grundarfjarðarvefnum verður svo á næstunni sagt frá frekari vinnu við snyrtingu bæjarins, frágang svæða og átak í gróðursetningu.

 

Bæjarstjórinn í skóginum, elstu trén eru 17-18 ára gömul.