Á vefsíðu Brokeyjar, Siglingaklúbbs Reykjavíkur, www.brokey.is er að finna frétt um að allar skúturnar, nema Kayam og Armor Crustaces, í Skippers D' Islande keppninni séu flúnar í var í höfnum í Keflavík og Grindavík vegna leiðindaveðurs. Einnig séu tvær skútur í Reykjavík, m.a. fjörtíufetari nr. 11 Azawakh III sem er með bilaða sjálfstýringu. Í fréttatímum í dag var einmitt greint frá því að skútuna hefði tekið niðri við Akurey þegar verið var að lóðsa hana frá skerjum á Kollafirði, þar sem hún hafði vikið af hefðbundinni siglingaleið. Skipstjórinn var einn á ferð.

Tvíbytnan í keppninni, Magnolia III, braut bakborðsrýtingsborð skútunnar og fór til Reykjavíkur til skoðunar þar sem óvíst var um ástand skútunnar.

 

Spáð er leiðindaveðri áfram í nótt og fram eftir föstudeginum.

 

Hægt er að fá upplýsingar um alla keppendur, skútur og skipstjóra, á vef Skippers d’Islande keppninar. Þar undir er hægt að finna vefsíður margra keppenda, t.d. hinnar 24 ára gömlu Servane Escoffier sem kom langfyrst til Reykjavíkurhafnar í fyrri hluta keppninnar og klæðist nú lopapeysu frá Lillu í Gröf. Hún siglir ein frá Grundarfirði til Paimpol og ætlar þannig að tryggja sér þátttökurétt í hinni frægu ,,Romm-keppni”, Route du Rhum, sem er einmenningskeppni. Í henni er siglt frá bænum St. Malo á Brittaníuskaga í Frakklandi til frönsku eyjanna Guadeloupe sem eru á milli Karabíska hafsins og Norður-Atlantshafs, suðaustur af Puerto Rico.