Og Grundarfjörð gefst mér að líta
og grösuga Melrakkaey
og víkur og vogana hvíta
og velbúin siglandi fley.

 

Getur verið að franskar fiskiskútur hafi verið á meðal þeirra fleyja sem Jónas J. Daníelsen orti um í Minni Eyrarsveitar á síðari hluta 19. aldar?

Í það minnsta var það afar tilkomumikil sjón þegar skúturnar nítján lögðu af stað frá Grundarfirði í síðasta hluta leiðarinnar í siglingakeppninni Skippers d´Islande. Ferðinni er nú heitið beint aftur til Paimpol í Frakklandi og er áætlað að hún taki um 7-10 daga. Á fimm skútum af nítján eru skipstjórarnir einir í áhöfn, en það er sérstök raun sem þeir leggja á sig, að sigla einir í a.m.k. 1000 mílur og vinna sér inn stig til að öðlast þátttökurétt í öðrum keppnum.

Fimmtán mínútum áður en ræst var til brottfarar dró ský frá og sólin sendi kveðju sína yfir fjörðinn til keppendanna. Það var framandi að sjá fjölda glampandi segla bera við sjóndeildarhringinn og grundfirsk fjöll. Skúturnar fengu afar hagstæðan vind og mjög gott ,,start” að sögn framkvæmdastjóra keppninnar.

Mikill mannfjöldi var saman kominn við höfnina og meðfram ströndinni til að fylgjast með brottför gestanna.  Um klukkustund síðar lét svo gólettan Etoile (Stjarnan) úr höfn. Hún sigldi fram fyrir bryggjurnar og bauð svo gestgjöfum sínum upp á sýningu, þegar hvert seglið á fætur öðru var dregið upp og að lokum blásið til brottfarar.

Á gestunum var að heyra að þeir væru sérstaklega ánægðir og höfðu þeir á orði að bæjarbúar hefðu sýnt þeim mikla gestrisni, hlýju og hjálpsemi.