Frá Grundarfirði.
Frá Grundarfirði.

Smit af völdum kórónaveirunnar COVID-19 hefur nú greinst í Grundarfirði. 

Það þýðir að farin er af stað rakning smits hjá rakningateymi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Á vegum þess er haft samband við þau sem hafa verið í návígi við smitaðan einstakling. Sjö eru nú komin í sóttkví sem smitinu tengjast, en einn var fyrir í sóttkví í tengslum við annað smit. Frekari sýnatökur eru viðbúnar í dag hjá HVE. 

Við höfum verið lánsöm hingað til, með fjölda smita, en við skulum búa okkur undir að fleiri smit geti greinst hér á næstu dögum í ljósi þess hvernig útbreiðslan hefur verið á landinu síðustu vikur. 

Frekari upplýsingar eiga eftir að berast okkur í dag um stöðuna, en nú fara af stað enn frekari ráðstafanir hjá Grundarfjarðarbæ og stofnunum okkar og munu tilkynningar birtast á vef Grundarfjarðarbæjar.   

Það er brýnt að við íbúar höldum sömuleiðis áfram að fylgja fyrirmælum og leiðbeiningum almannavarna og landlæknis. Förum varlega, hugum að sóttvörnum hver fyrir sig og sína, handhreinsun, notkun andlitsgríma þar sem ekki er hægt að halda fjarlægðarmörk og munum að eldra fólk og þau sem hafa langvinna sjúkdóma eru sérstaklega viðkvæm.  Við kunnum þetta og höldum því ró okkar. 

Við sendum hlýjar kveðjur til þeirra sem veikjast. Við komumst í gegnum þetta verkefni með því að standa saman, sýna hvert öðru virðingu og hjálpsemi.   

Bæjarstjóri