- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Fyrir tæpum 20 árum ákváðum við Snæfellingar sameiginlega að standa vörð um umhverfið. Við ákváðum að hvert lítið skref skipti máli - mikilvægast væri að byrja að stíga þau. Sveitarfélögin fimm á svæðinu mynduðu með sér bandalag og hófu að gera umbætur í starfsemi sinni og miðla fræðslu til íbúa. Eftir nokkurra ára undirbúning fengu sveitarfélögin óháða vottun fyrir frammistöðu í umhverfis- og samfélagsmálum og frá árinu 2008 höfum við fengið slíka vottun árlega. Mikilvæg framfaraskref hafa náðst, en margt viljum við þó gera enn betur. Markmiðið er skýrt; að axla ábyrgð á neysluvenjum okkar og draga úr þeim áhrifum sem við höfum á umhverfið. Snæfellsnes er einstakt svæði, ríkt af auðlindum og einstökum náttúruperlum, sem við viljum gæta.
|
Það var á Snæfellsnesi sem fyrst var byrjað að flokka heimilissorp á Íslandi, árið 2008, og í dag er heimilissorp flokkað í öllum sveitarfélögunum fimm. Á svæðinu er m.a. þriggja tunnu flokkun þar sem lífrænt og endurvinnanlegt efni er aðskilið frá sorpi sem sent er í urðun. Þar eru íbúarnir í lykilhlutverki. Við flokkum meira og betur en til dæmis höfuðborgarsvæðið og teljum að stærri sveitarfélög geti litið á okkur sem fyrirmynd. Við erum líka alltaf til í að miðla af reynslu okkar. Markviss flokkun sorps er undirstaða endurvinnslu. Við höfum náð sífellt betri tökum á meðhöndlun á plastúrgangi og höfum aukið hlutfall flokkaðs sorps frá því að flokkun hófst og af öllu sorpi á Snæfellsnesi fara tæp 50% beint í endurvinnslu. Við höfum minnkað notkun á plasti, m.a. með því að nota margnota burðarpoka í stað hefðbundinna plastpoka. Í því höfum við náð ágætum árangri en höldum áfram að gera betur. Börnin eru bestu sendiherrar umhverfisins vegna þess að í skólunum eru þau frædd um umhverfismál, auðlindir og sérkenni svæðisins. Þetta gerum við m.a. í gegnum Grænfánaverkefnið og virka átthagafræðikennslu. Á hverju ári taka heimamenn sig saman, félagasamtök, sveitarfélög og fleiri, og hreinsa rusl meðfram vegum og strandlengju Snæfellsness. Á Snæfellsnesi er ýtt undir ábyrga efnanotkun, íbúar fræddir um orkusparnað, ekki síst í húshitun, og stofnanir sveitarfélaga kaupa fyrst og fremst umhverfismerktar hreinsivörur, hreinlætisvörur og pappír. Að versla í heimabyggð er sömuleiðis markmið, m.a. þar sem kolefnisspor vöru er lágmarkað með þeim hætti. Þjóðir heims standa frammi fyrir gríðarstórum áskorunum í umhverfismálum og plastnotkun er einungis brot af þeim. Við þurfum öll að leggja okkar af mörkum eigi árangur að nást. Snæfellingar eru ábyrgir og framsýnir og við ætlum okkur að gera miklu betur. Næstu skref okkar í umhverfismálum snúa m.a. að því að draga enn frekar úr neyslu og sorpmagni, auk þess að efna til samtals við mikilvæga hagsmunaaðila. Á vefnum nesvottun.is má fræðast um umhverfisstarf Snæfellinga, en svæðið var það fyrsta í Evrópu til að hljóta vottun og hefur í dag gullvottun EarthCheck.
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmsbæ Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfjarðarbæ Eggert Kjartansson, oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps Guðrún Reynisdóttir, oddviti Helgafellssveitar Guðrún Magnea Magnúsdóttir, verkefnisstjóri umhverfisvottunar Snæfellsness Ragnhildur Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri svæðisgarðsins |