Laugardaginn 18. febrúar 2006 var haldinn í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði stofnfundur hlutafélags um byggingu og rekstur frystihótels (frystigeymslu) í Grundarfirði. Félagið gengur undir vinnuheitinu Snæfrost en nokkrir aðilar hafa unnið að undirbúningi þess.

Framhaldsaðalfundur verður haldinn eftir 2 vikur, en á þeim tíma er möguleiki að gerast hluthafi og skrá sig fyrir hlutafé í félaginu.

 

Starfsemi frystigeymslu er með þeim hætti að hún tekur við frystum afurðum til geymslu, gegn gjaldi, um lengri eða skemmri tíma, fyrir þá sem þess óska, t.d. beitu, frystum sjávarafurðum hverskonar og jafnvel frystum landbúnaðarafurðum. Ætlun undirbúningsnefndar er að geymslan rísi á nýrri landfyllingu við stóru bryggju, en væntanlegar byggingarlóðir á því svæði (ca. 7500 m2 byggingarlands) verða innan skamms auglýstar lausar til umsóknar.

 

Undirbúningsstjórn var skipuð á fundinum en í henni sitja Þórður Magnússon, Kristján Guðmundsson og Gísli Ólafsson, frá Grundarfirði og Hafsteinn V. Ásgeirsson framkvæmdastjóri Hafliða ehf. í Þorlákshöfn.