Helga Sjöfn og Bibba, nýir rekstraraðilar á Snæþvotti.
Eins og fram kom í auglýsingu í Jökli í nóvember þá hefur Unnur Guðmundsdóttir ákveðið að hætta með Snæþvott í Grundarfirði. Snæþvottur hefur rekið þvottahús um árabil og er þessi þjónusta talin ómissandi af Snæfellingum, það var því mikið áfall þegar fréttir bárust af því að Snæþvottur væri að hætta rekstri.

 

Tveir Grundfirðingar hafa nú ákveðið að taka við keflinu og reka þvottahúsið áfram, þetta eru þær Ingibjörg (Bibba) og Helga Sjöfn, þær hafa í sameiningu rekið Gallerí Kind í rúmt ár og mun galleríið færast í húsnæði Snæþvotts.

 

Í samtali við þær Helgu Sjöfn og Bibbu kom fram að þeim fannst ekki hægt að hafa ekkert þvottahús á nesinu og ákváðu því að slá til, þeim hefur verið tekið mjög vel af öllum þeim sem að þær hafa haft samband við varðandi áframhaldandi viðskipti. Ætlunin er að reka þvottahúsið með svipuðu fyrirkomulagi og verið hefur hingað til. Sami opnunartími verður fyrst í stað á þvottahúsinu en verslunin verður formlega opnuð fimmtudaginn 9. desember kl 14-18 og ýmsar vörur verða í boði.

Gallerí Kind verður áfram með sömu vörur og hafa verið en meðal þess er rennilásar, garn, ýmsar lopavörur margt annað. Við óskum nýjum rekstraraðilum velfarnaðar.

 

Frétt úr Jökli 2.12.2010