Í dag kl. 18 verður með lítilli athöfn í Sögumiðstöð opnuð sýning sem ber yfirskriftina Sjósókn fyrri tíma.

 

Brana SH 20

Gestum mun nú í fyrsta sinn gefast kostur á að skoða bát Snorra Elíssonar frá Vatnabúðum í Eyrarsveit, sem nú hefur verið endurgerður sem sýningargripur. Báturinn, Brana SH 20, var byggður árið 1913 sem árabátur fyrir föður Snorra, Elís Gíslason. Árið 1930 var sett í hann vél, 3ja hestafla vél af gerðinni Sleipnir. Sú vél mun hafa verið í bátnum fram til 1950 er sett var í hann 4,5 hestafla vél, af sömu gerð. Sú vél hefur nú verið gerð upp og er komin aftur í Brönuna.    

 

Eftir að Snorri dó og Elís Gunnarsson, systursonur Snorra, keypti Vatnabúðir, var Branan varðveitt á Vatnabúðum, eða þar til að báturinn var sýndur á hátíðinni „Á góðri stund“ árið 2002, þá óuppgerður. Síðan hefur báturinn verið í vörslu Sögumiðstöðvar og hefur nú, eins og fyrr segir, fengið sitt upprunalega útlit.

 

Það voru Ingi Hans Jónsson og Þ. Jökull Elísson, starfsmenn Sögumiðstöðvar, sem gerðu upp Brönuna. Þess má geta að Jökull er langafabarn Elísar gamla á Vatnabúðum.

 

Snorri sjálfur átti ekki börn, en systkini hans voru átta og frá þeim kominn mikill fjöldi afkomenda sem bjó/býr í Eyrarsveit. Þau (börn þeirra Elísar Gíslasonar og Vilborgar Jónsdóttur) eru nú öll látin en voru, í aldursröð, Guðjón, Gísli Karel, Guðrún Guðný, Lilja (barn, f. og d. 1902), Snorri sjálfur, Þórður, Lilja, Helga og Kristberg.

 

Íslands þúsund ár

Á sýningunni í Sögumiðstöð verður jafnframt sýnd kvikmyndin Íslands þúsund ár, eftir Erlend Sveinsson, en hún lýsir degi í lífi árabátamanna. Myndin er tekin í Bolungarvík, m.a. í og við Ósvör.

 

Sögumiðstöðin verður opin frá 10-19 laugardag og sunnudag. Sýning kvikmyndarinnar Íslands þúsund ár verður endurtekin báða dagana, sjá nánar í dagskrá hátíðarinnar.

 

Til fróðleiks     

Þess var minnst í nóvember árið 2002 að hundrað ár voru liðin frá fyrstu ferð ísfirska bátsins Stanleys með vélarafli. Það er talið marka upphaf vélbátaútgerðar á Íslandi þegar „olíuhreyfivjel“ af gerðinni Møllerup var sett í Stanley.

Sjá nánar um það umfjöllun á vef Bæjarins besta, með því að ýta hér.