Af vef Skessuhorns:

"Við vildum fara nýjar leiðir í að kynna sérstöðu Snæfellsness sem tvímælalaust er sjórinn og sjávarafli. Hér í Sögumiðstöðinni er verið að einangra og innrétta stjórt herbergi þar sem broti úr borgarísjaka verður komið fyrir á miðju gólfi og nær hann upp í loft. Við fengum gefins kælivél sem mun halda lítilsháttar frosti í herberginu yfir ferðamannatímann og fram á næsta haust," sagði Ingi Hans Jónsson í Sögumiðstöðinni í samtali við Skessuhorn. 

Hann segir að á ísjakann verði komið fyrir nokkrum eintökum af öllum þeim fiskategundum og krabbadýrum sem lifa hér við land. "Þetta verður langstærsta fiskasýning sem sett hefur verið upp hér á landi og kosturinn við hana er að alltaf er hægt að skipta út sýningarfiskunum," sagði Ingi Hans. Nánar er rætt við hann um þessa nýjung í Skessuhorni sem kom út í dag. Nú rétt í þessu er Sæborg ST-7 að draga risastórt brot úr borgarísjaka inn fjörðinn og verður strax farið að koma klakastikkinu fyrir í Sögumiðstöðinni. Ingi Hans segist glaður þiggja aðstoð hjálpfúsra handa við verkið. Guðlaugur Pálsson í Frostmarki er Inga innan handar við verkið og sér m.a. um tæknileg úrlausnarefni.