Af vef FSN

 

Á fimmtudag og föstudag 17. og 18. febrúar í síðustu viku, fengu nemendur og starfsfólk Fjölbrautaskóla Snæfellinga tækifæri til að líta upp úr námsbókunum og blanda geði á árlegum Sólardögum FSN. Allskonar námskeið og uppákomur voru í boði.

Bæði nemendur og kennarar fengu að læra grunn­atriði í nuddi og jóga, hvernig á að búa til girnilega eftirrétti og heilsuhristing, spreyta sig í karate og afródansi, fara í söngkennslu, læra meira um skyndihjálp og sig, fínpússa prjónahæfileikana, spila félagsvist, að fara á förðunarnámskeið og síðast en ekki síst að fara á hestbak. Gaman er að nefna að fyrir utan þá sem kenndu afródansinn eru allir þeir sem komu að kennslu þessara námskeiða búsettir hér á Nesinu. Við búum ekki aðeins yfir stórkostlegri náttúru hér á Snæfellsnesi, heldur líka stórkostlegum mannauði. Gólið, undankeppni FSN í Söngkeppni framhaldsskólanna, var haldin í hádeginu á fimmtudeginum og skapaði mikla stemningu og stuð. Að þessu sinni vann Særós Ósk Sævaldsdóttir úr Grundarfirði og verður hún fulltrúi FSN í Söngkeppninni í apríl. Hamingjuóskir og gangi þér vel í aðalkeppninni! Glænýtt atriði að þessu sinni voru svokallaðir Sólarleikar þar sem þátttakendum var skipt niður í hópa og þurfti hver hópur að leysa fjölbreyttar þrautabrautir víðs vegar um skólann. Sigurvegari í ár var liðið Bobbarnir og fengu liðsmenn afhentan Sólarverðlaun á árshátíðinni sem haldin var á föstudagskvöldinu. Til hamingju! Föstudagurinn 18. febrúar hófst með Krákuvisku (áfengislaus útgáfa af kráarvisku) og svo hélt Logi Geirsson fyrrum landsliðsmaður í handbolta fyrirlestur um sjálfstraust og hollan lífsstíl sem vakti mikla lukku. Að fyrirlestri loknum tók Logi hóp nemenda í æfingakennslu í íþróttahúsinu og olli það ekki vonbrigðum fyrir þá sem tóku þátt. Sérstaklega gaman var að fá 10. bekk frá grunnskólum á svæðinu í heimsókn til að hlusta á fyrirlesturinn hans Loga. Þátttaka nemenda og starfsmanna á Sólardögum var framúrskarandi og stemningin alveg frábær. Hjálpaði það mikið til að veðrið lék við okkur og ekki vafi að vor er í lofti. Föstudagurinn endaði með ógleymanlegri árshátíð og balli, en þær uppákomur eiga skilið að fá umfjöllun í sérstakri grein. Við í Sólardaganefnd viljum þakka nemendum og starfsfólki fyrir frábæra þátttöku og stuðning. Þið eruð æði! Við viljum líka skila þakklæti okkar til allra á svæðinu sem komu að Sólardögum að þessi sinni: Takk kærlega fyrir okkur! F.h. Sólardaganefndar, Johanna E. Van Schalkwyk og Unnur Sigmarsdóttir.