Frá Spjallarahópnum:

Spjallarinn er á sínum stað í kvöld, fimmtudagskvöldið 18. ágúst.  Hist verður kl. 20:00 í Bæringsstofu í Sögmiðstöðinni, Grundargötu 35.

Spjallarinn í kvöld verðum við þorpararnir (fólk sem alið er upp í þorpinu). Farið verður yfir þær breytingar sem hafa orðið á umgjörð þorpsins Grafarnes sem í dag er orðið Grundarfjarðarbær með hjálp myndasafns Bærings í Bæringsstofu.

Verið öll velkomin – og öllum velkomið að segja frá. Þegar við komum saman til að spjalla höfum við sett fram þráð sem síðan verður skemmtilegt verk úr sameiginlegum spuna.

Spjallari síðustu viku var hún Eglé Sipaviciute, en hún hefur í sumar séð um hin vinsælu sumarnámskeið fyrir börn á aldrinum ca. 6-10 ára. Eglé er nemi í mannfræði við Háskóla Íslands og hefur áralanga reynslu af stjórnun námskeiða fyrir börn. Hún er einstaklega lífleg og metnaðarfull þegar kemur að menningarstarfi og starfi með börnum,  má þar m.a. nefna uppsetningu leiksýninga hjá Þjóðleikhúsinu frá 2017. Hún er skátaforingi til margra ára og hafði umsjón með Útilífsskóla Skátafélagsins Skjöldunga árið 2021. 

Spjall Eglé þróaðist í skemmtilegan spuna og hugarflug. Spjallarar vikunnar þar á undan, þau Olena Sheptytiska og Mykola Kravets, komu á Spjallarann til að heyra hvað Eglé hafði að segja en kvöldið þróaðist síðan eins og áður sagði í skemmtilega hugmyndavinnu og bíðum við spennt eftir að sjá og heyra meira.

Spjallarar okkar fyrir tveimur vikum var úkraínska listaparið Olena Sheptytiska og Mykola Kravets sem búsett eru hér í Grundarfirði. Þau sögðu frá sjálfum sér við listaverkið sitt fyrir framan Heilsugæsluna en síðan var haldið til Listons sem hefur verið þeim innan handar og einnig leyft þeim að vinna að nýju listaverki sínu á vinnustofu hans. Nýja glæsilega listaverk þeirra Olenu og Mykola er nú komið á sinn stað fyrir utan Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Listaverkið vísar til undirstöðu og uppruna samfélagsins á Snæfellsnesi, sem er sjávarútvegur og landbúnaður. Verkið er fallegur fiskur og á öldutoppunum við fiskinn ganga kindur. Á „Jeratúni“, þar sem Fjölbrautaskólinn stendur, gengu áður á sumrin kindurnar hans Jera; Jeremíasar Kjartanssonar og Ceselíu Kjartansdóttur, en þau bjuggu í húsi sínu á Sigurhæðum í marga áratugi og höfðu þar fjárhús og heyjuðu tún.

Spjallarahópurinn þakkar síðustu Spjöllurum, þeim Olenu Sheptytiska, Mykola Kravets og Eglé Sipaviciute kærlega fyrir sinn þátt í spjallstund og fróðleik.  

 

Hittumst í kvöld fimmtudagskvöldið 18. ágúst í Sögumiðstöðinni og eigum saman góða spjallstund!