Grundargata 24 - Gamla
Grundargata 24 - Gamla "Björgvinshús" eða Sjálfstæðishúsið komið í nýja notkun, Kaffibrennslan Valeria.

 

Spjallarinn er viðburður sem fór af stað í Grundarfirði sumarið 2020 með frábærum undirtektum og var orðinn fastur liður á fimmtudagskvöldum.

Spjallarinn - einnig kallaður þorpari, þar sem hann er héðan úr þorpinu - leiðir þessa viðburði sem stendur til að verði vikulegir eða því sem næst. Öllum er velkomið að bregða sér í hlutverk Spjallarans, sem hefur það hlutverk að fá gesti til að taka þátt og njóta samverunnar. Spjallarinn getur einnig verið Spjallararnir, sem þá leiða viðburðinn saman.

Viðburðurinn getur verið í formi sögustundar, hann getur verið göngu- eða söguleiðsögn, tónlistarflutningur eða hvað annað sem spjallari kvöldsins vill við hafa.

Fyrstu Spjallararnir árið 2022 eru Jan Haas og Marta Magnúsdóttir, sem nýlega opnuðu kaffibrennslu í Grundarfirði. Þau ætla að fara með okkur í ferðalag um kaffiheiminn, segja okkur frá ferlinu við að opna kaffibrennslu í Grundarfirði og margt annað skemmtilegt og fræðandi.

Sjá hér nánari upplýsingar um viðburðinn. 

Mæting er á Grundargötu 24, kl. 20 fimmtudaginn 14. júlí nk. og taka þau hress á móti okkur.

Komdu með og taktu þátt í skemmtilegri óvissuferð! 

---

Hafir þú áhuga á að vera með viðburð með Spjallaranum, hafðu endilega samband við Olgu Sædísi, Olgu Alla, á netfangið olga(hja)grundarfjordur.is

Hugsunin á bak við spjallarann er að koma saman, því maður er manns gaman, að þjappa okkur þorpurum saman og bjóða hvert öðru og gestum okkar afslappaða, fræðandi og skemmtilega stemningu!

Spjallara-hópurinn