Fréttatilkynning frá Orkuveitu Reykjavíkur:

 

Ýmis atvik hafa orðið þess valdandi að framkvæmdir við hitaveitu í Grundarfirði munu taka lengri tíma en áformað var í upphafi.  Áform Orkuveitu Reykjavíkur um að klára verkefnið hafa hins vegar ekki breyst. 

 

Undanfarna mánuði, frá því í september, hafa staðið yfir dælingar á heitu vatni úr borholunni á Berserkseyri.  Vatnið úr holunni hefur verið kallað “erfiðasta jarðhitavatn” á Íslandi, bæði er það súrt og inniheldur að auki óvenjumikið klóríð (salt).  Hvoru tveggja setur skorður við efnisval í búnaði og rörum. Leiðni vatnsins og klóríðinnihald fer vaxandi eftir því sem dælingartíminn lengist (hefur enn ekki náð jafnvægi) sem bendir til innstreymis sjávar í jarðhitakerfið og því er óráð að hefja framkvæmdir að svo komnu máli.  Dælingu verður haldið áfram og þess beðið að jafnvægi náist.

 

Hitastig vatnsins er heldur lægra og magn úr holunni heldur minna en ráð var fyrir gert.  Hitastigið og niðurdráttur vatnsborðs í jarðhitakerfinu hafa hins vegar haldist nokkuð stöðug.

 

Hönnun dreifikerfis hitaveitunnar innan bæjarmarkanna er því sem næst lokið. Um aðveitulögnina frá Berserkseyri að bæjarmörkum gildir öðru máli, ekki er ennþá fullljóst hvort aðveitan verður lögð tvöföld með varmaskiptastöð á Berserkseyri eða einföld með varmaskiptastöð við bæjarmörkin. Einnig er ósvarað spurningum um efnisval.  Frekari rannsókna er þörf áður en hægt verður að ljúka hönnun aðveitulagnarinnar.  Í ljósi óvissu um aðveitulögnina, hitastig og efnasamsetningu jarðhitavatnsins, er ekki skynsamlegt að hefja framkvæmdir við dreifikerfið fyrr en á næsta ári, þegar ítarlegri upplýsingar liggja fyrir. 

 

Næsta skref Orkuveitunnar verður að bora nýja holu á Berserkseyri og reyna að skera ytri sprunguna sem ekki tókst við síðustu borun líkt og alkunna er.  Frekari ákvarðanir um tímasetningu framkvæmdanna bíða niðurstöðu borunarinnar og rannsókna í kjölfar hennar.

 

Verkefnið er mikil áskorun fyrir Orkuveitu Reykjavíkur vegna þeirra aðstæðna sem að framan er getið og að því loknu stöndum við með meiri þekkingu og reynslu en áður. Það er ótvíræður ávinningur verkefnisins. Það er vilji Orkuveitunnar að hefja framkvæmdir sem fyrst og þá væntanlega á næsta ári en þá þarf borunin og rannsóknir að hafa gengið vel.

 

Við hjá Orkuveitu Reykjavíkur viljum þakka Grundfirðingum góðar móttökur og væntum góðs samstarfs um uppbyggingu og rekstur veitna í Grundarfirði í framtíðinni.

 

F. h. Orkuveitu Reykjavíkur

 

Jakob S. Friðriksson  (jakob.fridriksson@or.is)