Blásið til sóknar- Staðarandi Vesturlands – innviðir – ímynd og tækifæri

 

Miðvikudaginn 4. maí veður haldin á Hvanneyri  ráðstefna   á vegum Samtaka  sveitarfélaga  á  Vesturlandi  og umhverfisskipulagsbrautar Landbúnaðarháskóla Íslands  með stuðningi frá sóknaráætlun.

Ráðstefnunni er ætlað að  leiða Vestlendinga til  samtals  um sérkenni sveitarfélaga  og hvernig þau geta nýst sem sókn í ímyndavinnu og atvinnutækifærum. Halldór Halldórsson formaður Sambands ísl. Sveitarfélaga setur ráðstefnuna en að henni koma fjöldi fyrirlesara, s.s. Björg Ágústsdóttir frá Alta,  Vífill Karlsson, Daði Guðjónsson frá Íslandsstofu , Sævar Freyr  Sigurðsson frá Saga Travel, Bryndís Geirsdóttir  og Edda Ívarsdóttir frá LbhÍ. Nemendur umhverfisskipulagsbrautar hafa unnið mörg  greiningar og hönnunarverkefni  á Vesturlandi sem kynnt verða á ráðstefnunni. Þá verður opnuð sérstök vefsíða sem gerir fjölda verkefna aðgengileg.  Að undirbúningi ráðstefnunnar hafa komið Páll Brynjarsson formaður SSV og Helena Guttormsdóttir lektor og brautarstjóri LbhÍ.  Sveitastjórnarfólk, ferðaþjónustuaðilar og allt áhugafólk um betri byggð er hvatt til að taka daginn frá því svo sannarlega eru sóknarfæri svæðisins mörg.

„Hver staður er einstakur og hefur sína sál eða anda sem greinir hann frá öðrum.  Á tímum hnattvæðingar þegar hvers kyns straumar og stefnur æða heimshorna á milli á augabragði steðjar ákveðin hætta að anda staðanna.  Stöðluð uppbygging samgöngumannvirkja,  bygginga og opinna svæða gerir það að verkum að ólíkum stöðum  svipar sífellt meira til hvors annars.  Á sama tíma eykst þörfin  á  hinu einstaka, sem ekki finnst annarsstaðar. Sú þörf er jafnt hjá þeim sem heimsækja staðina sem ferðamenn, þeim íbúum sem vilja laða til sín ný atvinnutækifæri og þeim sem leita eftir þráðum sem tengja samfélagið saman.  Í þessu samhengi er staðarvitund er mjög mikilvægt hugtak og mun vægi þess aukast hérlendis á komandi árum fylgi Ísland þeirri bylgju sem farið hefur um nágrannalönd okkar. Góð staðarvitund felst í því að geta greint þau fjölmörgu atriði sem staðarandinn byggir á, skilið samspilið á milli þeirra, metið þá þætti sem draga úr sérkennum og þá þætti sem styrkja þau. Þessi atriði geta átt sér stað í náttúrulegri umgjörð, byggingasögulegri arfleifð og í mannlífinu sjálfu fyrr og nú. Sem dæmi um birtingaform þessa þátta má nefna litasamspil sem má finna bæði í náttúrulegri umgjörð og mannvirkjum. Endurtekningu forma, lykt, viðmóti svo eitthvað sé nefnt“.  (Hrafnkell Proppé svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins og Helena Guttormsdóttir LbhÍ)