Trésmiðja Guðmundar Friðrikssonar er verktaki í þeim framkvæmdum, sem á að vera lokið í júnílok n.k. Þann 1. apríl n.k. mun leikskólinn flytja starfsemi drekadeildar (eldri börnin) yfir í samkomuhúsið, þar sem verktaki mun nú taka til við innanhússbreytingar á eldri hluta húsnæðisins og tengingu þess við viðbygginguna.

Músadeildarbörnin færa sig um leið yfir á drekadeildina. Þannig verður starfsemin fram að sumarleyfi leikskóla. Eldhúsið, tæki og tól, úr leikskólanum verður fært yfir í samkomuhúsið á næstu dögum og þar verður eldað. Þetta er óhjákvæmileg ráðstöfun meðan á breytingum leikskólahúsnæðisins stendur. Starfsfólk leikskólans mun gera allt til að gera dvölina í samkomuhúsinu sem besta og vistlegasta. Samkomuhúsið verður ekki til útleigu meðan á þessu stendur. Fyrir hönd leikskólans óska ég eftir góðu samstarfi við foreldra um að láta þetta fyrirkomulag ganga sem best upp.

Samþykkt hefur verið að hafa sumarlokun leikskóla í 20 virka daga í sumar, sem er stytting lokunar frá í fyrra (voru þá 24 + 2 starfsdagar). Ekki var talið forsvaranlegt að loka skemur í ár, m.a. vegna þess að framkvæmdir við lóð og fleira fara fram meðan á sumarlokun stendur.