Geysilegur síldarafli hefur verið í Grundarfirði í þessari viku og hvert aflametið slegið af fætur öðru. Síldarbátarnir hafa í þessari viku tvíslegið met sem svo sannarlega eiga eftir að komast í sögubækurnar, segja skipstjórar sem Skessuhorn ræddi við. Þeir segja að síldin hafi undanfarna daga öll verið að færast í aukana. Ef þrátt fyrir gríðarlegt magn síldar hefur Hafró ekki enn mætt á svæðið til rannsókna og mælinga á síldarstofninum í Grundarfirði. Eins og áður hefur komið fram í Skessuhorn eru síldarmælingar stofnunarinnar ekki fyrirhugaðar í firðinum fyrr en í febrúar á næsta ári, en hvort síldin verði þá enn til staðar, skal með öllu ósagt látið.

Tekið af vef www.skessuhornid.is

Fyrra metið

Síðastliðinn mánudag fékk síldarbáturinn Júpiter ÞH stærsta síldarkast sögunnar í Grundarfirði. Um 1400 tonnum var dælt upp úr nótinni á Júpiter. Að sögn kunnugra var þetta stærsta kast sem fengist hefur á Íslandsmiðum. Kastið hjá Júpiter var reyndar stærra því skipverjar misstu korkteinanna niður og eitthvað af síldinni slapp út af þeim sökum. Mjög góð síldveiði hefur síðar í vikunni í firðinum og hafa bátarnir margir verið að fá allt upp í 1000 tonn og meira í kasti. Því eru bátarnir afar fljótir að fylla sig og hafa margir þeirra verið að gefa öðrum afla. Í þessu risakasti Júpiters tóku þeir sjálfir 850 tonn og gáfu Huginn VE 80 tonn og svo var 470 tonnum dælt um borð í Bjarna Ólafsson AK. Síldin sem Júpiter fékk var mjög góð, eða 280 til 290 grömm að þyngd. Kastaði Júpíter klukkan tíu um morguninn á 10 til 12 faðma dýpi.

 

Seinna og enn stærra met

Á föstudag fékk svo vinnsluskipið Guðmundur VE sannkallað risakast og sló fimm daga met Júpiters ÞH. Fékk Guðmundur 2000 tonna kast mjög grunnt frá landi. Róbert Hafliðason skipstjóri Guðmundar VE , sagði í samtali við Skessuhorn að þetta hafi verið gríðarlegt kast. “Ég kastaði á óvenjulegum stað, mjög stutt frá landi. Hringdi síðan í Runólf Guðmundsson útgerðamann í Grundarfirði sem þekkir fjörðinn betur en lófann á sér og kastaði eftir hans leiðbeiningum. Það kast tókst heldur betur vel, þetta var of stórt kast ef eitthvað er. Við dældum frekar rólega úr nótinni vegna þess hversu grunnt er eða sjö faðmar á þessum stað. Samt var þetta þægilegasta kastið sem við höfum tekið hér í Grundarfirði því engin skel eða drasl fylgdi með,” sagði Róbert Hafliðason, skipstjóri. Hann sagði að þeir hefðu tekið 500 tonn sjálfir og það myndi duga í tveggja daga vinnu hjá þeim. “Við létum Hákon hafa hafa 600 tonn en restini fór um borð í Áskel EA.”

 

Því má við bæta að þá fékk Kap gríðarstórt kast rétt hjá Guðmundi eða um 1000 tonn og settu þeir um 500 tonn um borð í Börk NK sem hafði skömmu áður fengið 500 tonna kast sjálfur. Það er því engum ofsögum sagt að sannkallað síldarævintýri hefur ríkt í Grundarfirði.

 

 Tekið af vef www.skessuhornid.is