Um áramótin lýkur launalausu leyfi Sigríðar Herdísar Pálsdóttur, leikskólastjóra.  Sigríður Herdís hefur ákveðið að koma ekki til starfa á ný, enda er hún flutt á Austurland.  Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar hefur ákveðið að auglýsa stöðuna lausa til umsóknar og er auglýsinguna að finna hér .....

Starf leikskólastjóra Leikskólans Sólvalla

 

 

Grundarfjarðarbær auglýsir starf leikskólastjóra Leikskólans Sólvalla í Grundarfirði laust til umsóknar.

 

Leikskólinn Sólvellir er tveggja deilda leikskóli.  Í leikskólanum hefur verið unnið þróunarstarf varðandi „Ferlimöppur“ nemenda undanfarin ár.  Leikskólinn er staðsettur í miðju þéttbýli Grundarfjarðar og nú eru í skólanum 47 börn frá 12 mánaða aldri.

 

Ráðið verður í starfið frá og með 1. janúar 2009 eða eftir samkomulagi.  Laun og kjör eru samkvæmt kjarasamningi Félags leikskólakennara og Launanefndar sveitarfélaga.  Skilyrði er að umsækjendur hafi réttindi leikskólakennara og kostur er ef viðkomandi hefur lokið stjórnunarnámi eða hefur góða reynslu af stjórnun leikskóla.  Veitt verður aðstoð við leit að húsnæði ef þörf verður fyrir það.

 

Umsóknarfrestur um starfið er til og með 10. desember n.k.  Umsóknum með upplýsingum um náms- og starfsferil ásamt æviferilskrá (CV) óskast skilað til skrifstofu Grundarfjarðar-bæjar að Grundargötu 30, 350 Grundarfirði.  Senda má umsóknir í tölvupósti á netfang bæjarstjóra.

 

Nánari upplýsingar veitir bæjarstjóri á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar eða í síma 430-8500 og með tölvupósti, netfangið er baejarstjori@grundarfjordur.is

 

Grundarfjarðarbær er framsækið sveitarfélag sem leggur áherslu á góða þjónustu við íbúa og öflugt atvinnulíf.  Þéttbýlið í Grundarfirði byggðist upp á síðustu öld þegar sjávarútvegi óx fiskur um hrygg og vinnsla á fiski varð eftirsóttur atvinnuvegur.  Grundarfjörður er á norðanverðu Snæfellsnesi og nýtur mikillar náttúrufegurðar og nálægðar við náttúruperlur eins og Snæfellsjökul og eyjarnar í Breiðafirði.   Miklir útivistarmöguleikar eru í Grundarfirði og á Snæfellsnesi öllu.  Öll venjuleg þjónusta er til staðar í Grundarfirði svo sem heilsugæsla, verslanir, leikskóli, grunnskóli, framhaldsskóli, veitingahús, gististaðir, bankar og margt annað.  Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Grundarfjarðarbæjar www.grundarfjordur.is

 

Bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar