Í gær þriðjudaginn 2. október var starfsdagur hjá öllum grunn- og leikskólum á Snæfellsnesi. Grunnskólakennarar komu saman hér í Grundarfirði og sátu námskeið sem nefnist Samvinnunám. Námskeiðið var á vegum Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga en veg og vanda af námskeiðinu hafði Rósa Eggertsdóttir kennsluráðgjafi frá Háskólanum á Akureyri.

Samvinnunám byggir á þeim sjónarmiðum að nemendum farnist vel í námi þegar þeir;

• vinna verkefni sem gerir samvinnu nauðsynlega

• deila með sér hugmyndum og fá umræður um þær

• skilja að hagsmunir þeirra fara saman við árangur annarra nemenda

• hafa hver og einn sitt sérstæða gildi fyrir hópinn

• þurfa að beita félagslegri fræni í samvinnu

• meta sjálfir eigin framfarir, félagslegar og námslegar

 

Kennarar voru mjög ánægðir með námskeiðið og vonandi kemur það til með að nýtast vel í vinnu með nemendum og gera skólastarfið fjölbreyttara, skemmtilegra og árangursríkara.

 

Námskeiðsgestir nutu þess að koma hingað til Grundarfjarðar í sól og blíðu og hrósuðu veitingunum í hástert sem starfsfólk skólans sáu alfarið um af miklum myndarbrag og alúð.