Stjórn FSSF kveður Stefán; f.v. Erla Friðriksdóttir, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, formaður, Stefán Jóhann, Sigríður Finssen, forseti bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar og Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar.

 

Við næstu mánaðarmót lætur Stefán Jóhann Sigurðsson, skrifstofustjóri Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga, af störfum.

Af því tilefni var efnt til kveðjusamsætis í Félagsheimilinu Röst á Hellissandi.  Margir lögðu leið sína þangað til að heiðra Stefán Jóhann á þessum tímamótum í lífi hans.  Stefán Jóhann hefur gengt starfi skrifstofustjóra FSSF allt frá stofnun byggðasamlagsins fyrir hart nær 10 árum en stofnunin fagnar áratugarafmæli sínu næsta vor.

Meðal gesta voru fyrrverandi og núverandi  samstarfsmenn Stefáns, auk barna hans, starfsmenn LÍ á Hellissandi, skólastjórnendur,  nefndarfólk í félagsmálanefnd Snæfellinga og stjórn FSSF.  Á boðstólum var dýrindis kaffiveisla með margs konar  „Hnallþórutertum“ félagskvenna Kvenfélags Hellissands.  Margir gesta ávörpuðu Stefán og færðu honum gjafir og góðar kveðjur.