Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum þann 8. júní 2009 stefnu í ferðaþjónustu.

Upphaf stefnumótunarvinnunnar má rekja til aðgerða bæjarstjórnarinnar og ákvörðunar um að verkefnið yrði liður í mótvægisaðgerðum vegna almennrar skerðingar á aflaheimildum. Með því vildi bæjarstjórn bregðast við og kortleggja möguleika byggðarlagsins til eflingar atvinnulífsins til framtíðar.

Ferðaþjónusta er tiltölulega ung en ört vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Spáð hefur verið áframhaldandi aukningu ferðamanna til landsins og bent á að sóknarfæri séu nú sem aldrei fyrr í íslenskri ferðaþjónustu vegna efnahags­ástandsins. Ferðaþjónustan er t.d. augljós vaxtarbroddur í flestum byggðum landsins og sérlega mikilvæg fyrir landsbyggðina því hún byggir á aðföngum sem ekki er hægt að flytja úr stað, eins og t.d. náttúrufegurð.

Markmið ferðaþjónustustefnu er að hún stuðli að vexti ferðaþjónustu í bænum, að auknu samstarfi í greininni og auknu samstarfi milli ferðaþjónustuaðila og bæjarins – auk samstarfs á stærra svæði.

Á liðnu ári voru haldnir opnir samráðsfundir með áhugasömum bæjarbúum, ferðaþjónustuaðilum og fleirum. Ráðgjafarfyrirtækið ALTA, sem hefur m.a. útibú í Grundarfirði, stýrði fundunum og hefur unnið að stefnumótuninni, m.a. úr þeim efnivið sem fékkst af samráðsfundunum, auk þess sem fulltrúar bæjarins og ferðaþjónustuaðilar lögðu í framhaldi af samráðsfundum, sitt af mörkum til vinnunnar.

Hlutverk bæjarins í ferðaþjónustu hefur verið skilgreint og mótuð framtíðarsýn um uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. Skilgreindar eru þrjár meginstoðir stefnunnar og markmið sett um hverja stoð. Þannig er lögð áhersla á að nýta og byggja á náttúrugæðum svæðisins, sögu og menningu, á sjálfbæran hátt og byggja t.d. á vinnu sveitarfélaganna á Snæfellsnesi í gegnum Green Globe. Sömuleiðis er lögð áhersla á að byggja upp barnvæna ferðaþjónustu, með góðri aðstöðu og tækifærum fyrir barnafjölskyldur á ferðalagi. Einnig er áhersla á að veita persónulega þjónustu, með áherslu á gæði umfram magn. 

Ofangreindar áherslur eiga það sammerkt að þær geta fallið að þegar samþykktri stefnu, s.s. fjölskyldustefnu Grundarfjarðar, og menningu staðarins.

Uppbygging á þjónustu og aðstöðu fyrir íbúa kemur ferðamönnum til góða og að sama skapi mun framkvæmd ferðaþjónustustefnunnar koma íbúum til góða. Þannig er orku og fjármunum Grundfirðinga best varið.

Stefnunni er skipt niður í þætti og markmið sett fyrir hvern þátt, með skilgreindar leiðir að markmiðum stefnunnar og aðgerðir settar fram í ítarlegri aðgerðaáætlun, sem er hluti stefnunnar.

Efling ferðaþjónustu er samstarfsverkefni Grundarfjarðarbæjar og aðila í ferðaþjónustu. Það eru ekki eingöngu gististaðir og veitingahús sem eru ferðaþjónustuaðilar, heldur fjölmargir aðrir sem hafa hag af vexti og viðgangi ferðaþjónustu í Grundarfirði, svo sem verslanir, verkstæði og fleiri. Því er vonast til að sem best samstarf takist milli þessara aðila.

Ferðaþjónustustefna á að nýtast bæjarstjórn til ákvarðanatöku og væntingar eru einnig um að hún stuðli að aukinni þekkingu á mikilvægi greinarinnar og tækifærum. Þess er vænst að við framkvæmd stefnunnar sé samstaða efld meðal bæjarbúa um að allir hlekkirnir í keðjunni skipti máli – ferðaþjónusta sé ekki einkamál ferðaþjónustuaðila, heldur geti hún bætt hag annarra, styrkt þjónustustigið í bænum og því sé það hagsmunamál bæjarbúa að leggja sitt af mörkum til þess að bjóða gesti velkomna. 

Stefnuna má finna hér.