Steinar Þór Alfreðsson, Hafsteinn Garðarsson hafnarstjóri og Eyþór Garðarsson á Grundarfjarðarhöfn í…
Steinar Þór Alfreðsson, Hafsteinn Garðarsson hafnarstjóri og Eyþór Garðarsson á Grundarfjarðarhöfn í morgun, 22. apríl 2022

Steinar Þór Alfreðsson hefur verið ráðinn til starfa hjá Grundarfjarðarhöfn. Vegna aukinna umsvifa auglýsti Grundarfjarðarhöfn eftir starfsmanni í mars sl. og hóf Steinar Þór störf hjá höfninni í dag. 

Steinar býr í Grundarfirði ásamt fjölskyldu sinni og hefur unnið sem flutningabílstjóri hjá Ragnari og Ásgeiri í Grundarfirði sl. 12 ár. Hann er lærður húsasmiður, með 30 tonna skipstjórnarréttindi og hefur stundað eigin trilluútgerð, unnið við smíðar og fleira. 

Við bjóðum Steinar velkominn til liðs við okkur á Grundarfjarðarhöfn!

Síðari hluta maímánaðar mun höfnin taka upp breytt vinnutímafyrirkomulag starfsmanna, sem kemur til vegna verulega aukinna umsvifa á höfninni.

Landaður afli í Grundarfjarðarhöfn árið 2021 var 23.677 tonn og jókst um tæplega þriðjung frá árinu 2020, þegar ársaflinn var 18.482 tonn. 

Í janúar-mars á þessu ári var landað rétt tæpum 9000 tonnum í Grundarfjarðarhöfn og jókst landaður afli um ríflega 60% frá sama tímabili árið 2021, þegar landað var um 5.500 tonnum. Sumarið 2022 hafa verið bókaðar 43 komur skemmtiferðaskipa og eru í þeim hópi mun fleiri stærri skip en áður hafa komið hér í höfn. 

Aukning í lönduðum afla og auknar komur stærri skemmtiferðaskipa helgast að verulegu leyti af bættri hafnaraðstöðu með 130 metra lengingu Norðurgarðs og auknu athafnarými á hafnarsvæðinu.