Frétt á vef Skessuhorns 2. júlí 2009:

Á dögunum boðaði Þórunn Kristinsdóttir fyrrverandi formaður Verkalýðsfélagsins Stjörnunnar í Grundarfirði stjórn Dvalarheimilisins Fellaskjóls á sinn fund í húsnæði félagsins að Borgarbraut. Tilefnið var ærið því það var komið að því að efna fundarsamþykkt aðalfundar Stjörnunnar frá árinu 2007 um fjárstyrk til Fellaskjóls. Upphaflega var samþykktin fólgin í því að styrkja Dvalarheimilið í fimm ár um eina milljón króna árlega en þeirri samþykkt var breytt áður en kom til sameiningar verkalýðsfélaganna á Snæfellsnesi og var styrkurinn nú greiddur út í einu lagi krónur 5 milljónir. 

Þórunn sagði frá því að eftir að þessir peningar hefðu verið lagðir til hliðar á bankabók hefði verið mikil ásókn bankamanna í að þeir yrðu ávaxtaðir á betri hátt í peningamarkaðssjóði eða með hlutabréfakaupum en sem betur fer hefði hún haft í það miklu að snúast í búskapnum ýmist í sauðburði, heyskap eða slátrun að hún hefði ekki mátt vera að því að ræða frekar við ráðgjafana og því hefði þessi peningur varðveist ágætlega þrátt fyrir hrun bankanna.  Elsa Árnadóttir formaður stjórnar Dvalarheimilisins þakkaði fyrir þennan góða styrk sem hún sagði koma sér afar vel því að undanförnu hafa staðið yfir miklar framkvæmdir við breytingar og stækkun á eldhúsi sem og baðaðstöðu vistmanna ásamt fleiri lagfæringum. Nýverið var allt öryggiskerfi heimilisins endurnýjað og búið er að skipta um glugga og endurnýja klæðningu á austurhlið húsnæðisins. Þá stendur fyrir dyrum lagfæring á þaki ásamt því sem málað verður utanhúss í sumar og allt umhverfi hússins fær yfirhalningu á þessu sumri.