Elín Gunnarsdóttir og Sigrún Pálsdóttir

 

Tvær dömur fóru frá Grundarfirði fyrir hönd nýskipaðs ungmennaráðs bæjarins á þingið Stjórnlög unga fólksins. Þar fengu ungmenni hvaðanæva af landinu að taka þátt í að mynda sér skoðanir á stjórnarskrá Íslands og móta tillögur út frá þeim. Niðurstöður þingsins verða síðan kynntar fjölmiðlum og skýrsla afhent Alþingi og Stjórnlagaráði. Þeir sem stóðu að þessu þingi voru UNICEF, Umboðsmaður barna og Reykjavíkurborg. Markmið þingsins er að ungmenni fái að skipta sér aðeins af stjórnarskrárumbótum og leyfi rödd sinni að heyrast varðandi þetta mál.

Margt og mikið kom fram og voru þessir punktar t.d. ræddir af ungmennunum:

  • Þarf að breyta stjórnarskránni?
  • Er nauðsynlegt að hafa þjóðhöfðingja?
  • Ráðherrar, sem fara með framkvæmdarvaldið, eru oftast líka alþingismenn. Hverjir eru kostir þess og gallar?
  • Er sjálfstæði dómstóla nægilega tryggt í stjórnarskránni?
  • Hverjir ættu að hafa kosningarétt?
  • Eru mannréttindi nægilega tryggð í íslensku stjórnarskránni?

Meðal þess sem ungmennin voru afar sammála um var að stjórnarskráin ætti að vera læsileg, aðgengileg og á einföldu og skýru máli og einnig að efni hennar yrði kynnt börnum og unglingum, t.d. kom þessi spurning: "Hvers vegna fáum við Nýja testamenntið afhent í grunnskólanum en ekki Stjórnarskrá Íslands?". Einnig kom mjög skýrt fram í niðurstöðum þeirra mikilvægi þess að forsetinn fái að halda þeim rétti að fá að skjóta málum til þjóðarinnar, ýmsar útfærslur voru síðan ræddar hvernig svo atkvæðagreislur færu fram. Margt annað var svo rætt og verður spennandi að sjá skýrsluna þegar þar að kemur.