Bókasafn Grundarfjarðar er almenningsbókasafn rekið af Grundarfjarðarbæ en er ætlað að veita skólasafnsþjónustu við grunnskólann og tónlistarskólann. Þjónustusvæðið er Grundarfjarðarbær.

 

Bókasafnið er upplýsinga- og menningarstofnun sem veitir öllum íbúum á þjónustusvæðinu jafnan og greiðan aðgang að upplýsingum og fjölbreyttum bókakosti. 
 

Eitt af grundvallarmarkmiðum bókasafnsins er að efla upplýsingalæsi og stuðla að símenntun. Því er jafnframt falið að safna, geyma og miðla notendum almennum upplýsingum um bæjarfélagið og þjónustu þess og sögu. 

 

Bókasafnið hefur ýmsar leiðir til að ná þessum markmiðum. Safnkostur er tengdur Gegni, landskerfi bókasafna með aðgengilegar upplýsingar um staðsetningu og lánastöðu gagna. Hægt er að taka frá bækur eða panta í millisafnaláni. Lánþegar hafa aðgang að eigin síðu á Gegni og geta fylgst með bókalánum sínum og barna sinna.


Þegar flutt var í nýtt og stærra húsnæði að Borgarbraut 16 árið 2001 var ákveðið að bjóða upp á fleiri tímarit en áður enda meira pláss til að setjast niður við lestur. Allir hafa rétt til að koma og vera og njóta um leið kyrrðar safnsins en geta einnig spjallað saman á lágu nótunum um hugðarefni sín.

 

Bókasafnið heldur úti vefsíðu sem nú er komin undir „Þjónustu“ á bæjarvefnum. Þar má meðal annars finna skrá yfir efni tengt byggðarlaginu, ýmsar gerðir bókalista og leiðbeiningar um upplýsingaleit.

 

Bókasafnið opnar kl. 15 alla virka daga.
Það er opið til kl. 18 mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga,
til kl. 20 á fimmtudögum og
til kl. 17 á föstudögum.

 

Sími 430 8570

Netfang: bokasafn@grundarfjordur.is
Veffang: http://grundarfjordur.is > Þjónusta