Frá Grundarfirði
Frá Grundarfirði

Á 251. fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar þann 22. september 2021 var lögð fram til kynningar skýrsla á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis, forsætisráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis undir heitinu: "Störf án staðsetningar - Staða og framtíðarhorfur".  Skýrslan var kynnt í frétt ráðuneytanna þann 7. september sl.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 30. nóvember 2017, í kafla um Byggðamál, var kveðið á um að ráðuneytum og stofnunum þeirra yrði falið að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er.  Um verkefnið (merkt B7) er janframt fjallað í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024, sem samþykkt var af Alþingi í júní 2018. Hér má finna lýsingu á framvindu þessarar aðgerðar í Byggðaáætluninni. 

  • Fyrir árslok 2019 áttu ráðuneyti og stofnanir að vera búin að skilgreina störf sem geta verið án sérstakrar staðsetningar þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki.
  • Þegar slíkt starf er auglýst á að vekja athygli á að um starf án staðsetningar sé að ræða. 
  • Fyrir árslok 2021 skulu 5% auglýstra starfa vera án staðsetningar.
  • Í árslok 2024 skulu 10% auglýstra starfa vera án staðsetningar.
  • Árangur af verkefninu á að mæla í fjölda starfa í einstökum ráðuneytum og stofnunum sem eru unnin utan veggja þeirra borið saman við 1. janúar 2018.

Verkefnishópi, með fulltrúum allra ráðuneyta, var falið að vinna að greiningu á núverandi stöðu hjá stofnunum ríkisins á höfuðborgarsvæðinu og að sjá til þess að árlega verði hægt að fá fram tölfræði um fjölda auglýstra starfa án staðsetningar.  Skýrslan sem nú er komin út hefur að geyma þessa greiningu og tillögur um næstu skref.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar samþykkti samhljóða eftirfarandi ályktun um málið á fundi sínum: 

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar fagnar því að þessi samantekt hafi verið gerð.
Bæjarstjórn telur mikilvægt að ríkisstofnanir og ráðuneyti fylgi af einurð þeim áformum í samstarfssáttmála ríkisstjórnar og gildandi Byggðaáætlun, að 10% starfa á vegum ríkisins verði auglýst án staðsetningar í síðasta lagi árið 2024. Mikilvæg forsenda sé að skráning og utanumhald sé með þeim hætti að hægt sé að mæla og meta hvort markmiðin náist.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar áréttar, að mikil tækifæri felast í því fyrir samfélög og íbúa á landsbyggð að nýta tiltæka tækni og aðstöðu til að vinna störf í fjarvinnu, óháð staðsetningu. Jafnframt getur verið í því fólginn mikill ávinningur fyrir viðkomandi stofnanir og vinnustaði.