Frá Strandhreinsunardeginum í byrjun maí 2019 - duglegir íbúar að
Frá Strandhreinsunardeginum í byrjun maí 2019 - duglegir íbúar að "plokka".
Stóri plokkdagurinn fer fram á Degi umhverfisins, laugardaginn 25. apríl og við erum með!
 
Vorið er komið og við erum byrjuð að gera fínt hjá okkur!

Það er tilvalið að nýta góða veðrið og taka þátt í STÓRA PLOKKDEGINUM, hreinsa plast og annað rusl sem safnast hefur á víðavangi eftir veturinn. 

Svona gerum við:

  • Höfum ruslapoka og hanska við plokkið og klæðum okkur eftir aðstæðum
  • Plokkum á opnum svæðum þar sem okkur finnst þurfa, þar sem við viljum láta gott af okkur leiða
  • Leiðbeinum börnum og ungu fólki - gætum okkar á oddhvössum hlutum
  • Losum ruslið á sorpmóttökustöðinni við Ártún (gámastöðinni) frá kl. 12-14 eða í gáminn á tjaldsvæðinu, ef við náum ekki  opnunartíma gámastöðvar. Einnig má losa í tunnurnar heima hjá okkur, ef við höfum pláss
  • Virðum tveggja metra regluna! 
  • Grundarfjarðarbær setur færslu á Facebook á laugardagsmorgninum - plokkarar smella mynd af "sínu" rusli og bæta í safnið. Það er líka krassandi að taka "fyrir og eftir" myndir til að birta.
  • Gleðjumst yfir góðu dagsverki; hreinna umhverfi og fallegri bæ!  
Plokk á Íslandi eru samtök sem hvetja landsmenn til að láta gott af sér leiða. Sjá hóp á Facebook hér.
Í auglýsingu frá samtökunum segir að plokkið sé EKKI BROT Á SAMKOMUBANNI. Plokkið sé frábær útivera og ráðlagður dagsskammtur af hreyfingu, um leið og við finnum fyrir tilgangi, sjáum árangur, eflum núvitund og gerum umhverfinu og samfélaginu okkar gott.  Svo kostar plokkið ekki neitt - en gefur heilmikið til baka!