Myndina tók Helga Ingibjörg Reynisdóttir

 

Nú hafa fjölmargir háhyrningar dvalið í Grundarfirði um nokkurt skeið í góðu yfirlæti. Eitthvað virðist það vera að fréttast því þeim hefur fjölgað töluvert undanfarna daga. Auk háhyrninganna er nú einnig hægt að sjá höfrunga, hrefnur og hnýsur bregða á leik. Dýrin eru talin í hundruðum og er þá aðeins átt við Grundarfjörð, en fjöldi dýra er einnig í Kolgrafafirði.

Heimamenn hafa aldrei séð neitt þessu líkt og telja að skýringin hljóti að vera gríðarlegt magn af síld í firðinum, en hana étur hvalurinn með bestu lyst. Fjöldi fólks hefur gert sér ferð til að berja augum þetta stórkostlega sjónarspil náttúrunnar, sumir á sjó en aðrir á landi, en hvalirnir sjást vel úr fjörunni á Grundarkampi og af bryggjunni í bænum. Þeim sem ekki hafa enn séð herlegheitin er bent á að vel spáir í dag og á morgun.