Jólatónleikar Stórsveitar Snæfellsness verða haldnir sunnudaginn 1. desember, í Fjölbrautaskóla Snæfellinga. 
Sveitin hefur nú fengið Karlakórinn Kára og sjö einsöngvara til liðs við sig. 
Dagskráin samanstendur af sígildum jólalögum og dægurjólalögum og því ættu allir, ungir og aldnir að fá að heyra sín uppáhalds jólalög. Öllu verður til tjaldað í hljóðkerfi, hljóðblöndun og ljósum og lofar sveitin stórkostlegri hljóðrænni og sjónrænni upplifun. Við sama tækifæri verður vígt nýtt svið í FSN, sem keypt hefur verið fyrir gjafafé. 
Stórsveit Snæfellsness er skipuð ungu fólki af Snæfellsnesi og er rekin í samstarfi við Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Baldur Orri Rafnsson hefur stjórnað sveitinni frá því hún tók til starfa haustið 2013. Á þeim stutta tíma hafa þessir ungu tónlistarmenn náð ótrúlegum árangri og tónleikar þeirra með flottustu menningarviðburðum á Snæfellsnesi.
Tónleikarnir hefjast kl. 20.
Aðgangseyrir er 1.500 krónur og frítt fyrir 12 ára og yngri.