Alþjóðlega stuttmyndahátíðin Northern Wave verður haldin í fimmta sinn 2.-4. mars næstkomandi í Grundarfirði. Yfir 160 stuttmyndir bárust hátíðinni í ár en 49 myndir voru valdar til sýningar.

39 af þessum myndum keppa í verðlaunaflokknum “Alþjóðlegar stuttmyndir” og 10 í verðlaunaflokknum “Íslenskar stuttmyndir”.

Þrenn peningaverðlaun eru í boði, besta alþjóðlega stuttmyndin (80.000 krónur), besta íslenska stuttmyndin (80.000 krónur) og besta íslenska tónlistarmyndbandið (40.000 krónur + premium áskrift í ár á gogogyoko.com og 50 evra inneign).


Mikil gróska var í íslenskri tónlistarmyndbandagerð á síðasta ári en Gogoyoko hefur valið úr 20 myndbönd sem keppa til verðlauna á hátíðinni í ár. 


Í dómnefnd sitja þær Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri, Elísabet Rónaldsdóttir klippari og franska kvikmyndatökukonan Isabelle Razavets.


Isabell er sérstakur heiðursgestur í ár og verður með masterklass um kvikmyndatöku á hátíðinni. Isabell hefur unnið mikið að gerð heimildarmynda t.a.m. tók hún heimildarmyndina Murder on a sunday morning sem vann Óskarsverðlaun 2001 sem besta heimildarmyndin.

Koma Isabelle á vel við því í fyrsta skipti í sögu Northern Wave verður boðið upp á dagskrá heimildarmynda en einnig sérstaka dagskrá kvikra (teiknimynda) mynda ætluð börnum.

Kinoklúbburinn verður með námskeið í stuttmyndagerð þar sem þátttakendur gera stuttmynd á einum degi á Súper 8 vélar. Þau læra að framkalla filmuna á staðnum og afraksturinn verður svo sýndur á lokadegi hátíðarinnar og besta myndin verðlaunuð. Hægt er að skrá sig á heimasíðu Northern Wave eða á facebook síðu hátíðarinnar.


Boðið verður upp á ball og tónleika og hina vinsælu fiskisúpukeppni eins og undanfarin ár. Fiskisúpukeppnin verður þó með nýju sniði í ár þar sem keppnin mun ekki aðeins miðast við fiskisúpur heldur fiskrétti af öllu tagi. Landsliðskokkurinn Hrefna Rósa Sætran dæmir í keppninni og vegleg verðlaun verða í boði.