Uppbygging í Sögumiðstöðinni fær stuðning í flokki menningarverkefna. Ingi Hans Jónsson tók við þeim…
Uppbygging í Sögumiðstöðinni fær stuðning í flokki menningarverkefna. Ingi Hans Jónsson tók við þeim styrk.

 

 

 

 

 

 

 

Uppbyggingarstyrkir - Í dag fór fram úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Vesturlands þar sem veittir voru 92 styrkir til verkefna sem efla munu atvinnuþróun og menningu í landshlutanum. Hátíðin var rafræn og send úr á Youtube rás SSV og má horfa á hana hér

Alls bárust 124 umsóknir og í heildina var sótt um samanlagt um rúmlega 176 milljónir króna.

Heildarupphæð styrkja nam 43.270.000 króna, samkvæmt frétt á vef Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi í dag. Fjármunirnir renna annars vegar til 68 menningarverkefna og hins vegar til 17 atvinnu- og nýsköpunarverkefna í samræmi við Sóknaráætlun Vesturlands. Auk þess voru veittar 5.300.000 króna í stofn- og rekstrarstyrki á sviði menningar. 

Þó nokkur fjöldi styrkja kom í hlut Grundfirðinga. 

Í flokki atvinnu- og nýsköpunarstyrkja sem hér segir:

Guðbrandur Gunnar Garðarsson, eða Gunni kokkur á Bjargarsteini, tók við þremur styrkjum f.h. Bolla ehf., hverjum að fjárhæð 500 þúsund krónur. Styrkirnir eru ætlaðir til vöruþróunar á karfaroði sem snakki, til að þróa sölsnakk og til þróunar á þaravíni.  

Lavaland ehf. fékk 600 þúsund króna styrk út á verkefni sem ber yfirskriftina Útrásarvíkingur. 

Í flokki menningarstyrkja hlutu styrki eftirtalin:

Gestavinnustofa listamanna í Grundarfirði, Artak350, sem Þóra Karlsdóttir myndlistarmaður rekur, hlaut 200 þúsund króna styrk.

Sönghópurinn Mæk fékk 250 þúsund kr. styrk og eru það Kristbjörg Ásta Viðarsdóttir og Gréta Sigurðardóttir sem eru skrifaðar í umsóknina, en stúlknabandið hefur á að skipa í það minnsta fjórum stórgóðum söngkonum, og stundum fleiri. 

Sólrún Halldórsdóttir myndlistarmaður fékk styrk til að setja upp skúlptúr í Grundarfirði sem lýsir veðrinu okkar í 112 orðum, að fjárhæð 300 þúsund krónur. 

Listvinafélag Grundarfjarðarkirkju hlaut 300 þúsund króna styrk fyrir tónleikaröð í Grundarfjarðarkirkju, en verkefnisstjóri er Linda María Nielsen. 

Alþýðulistamaðurinn Lúðvík Karlsson, Liston, hlaut styrk til að gera skúlptúrgarð í Torfabót, Grundarfirði, að fjárhæð 400 þúsund krónur. 

Grund – samfélags- og menningarmiðstöð er verkefni sem tengist uppbyggingu í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði. Verkefnið hlaut 1 milljón króna í styrk. Það er Ingi Hans Jónsson sem því stýrir, eins og fram kom í frétt hér á vefnum í desember sl. 

Þá fékk Grundfirðingurinn Dögg Mósesdóttir tvo styrki, annan að fjárhæð 1 milljón króna vegna alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar Northern Wave International Film Festival, sem haldin hefur verið á Rifi síðustu árin, og ennfremur 300 þúsund króna styrk til að halda vinnustofuna "Norrænar stelpur skjóta", sem ætluð er ungum norrænum kvikmyndagerðarkonum.

Öllum aðstandendum þessara frábæru verkefna, sem og annarra styrkhafa, eru færðar innilegar hamingjuóskir og þeim óskað velfarnaðar í spennandi verkefnum.